Untitled Document
- SATOR ~ AREPO ~ TENET ~ OPERA ~ ROTAS -
 

Viðburðir

 
haus


Ólína ÞorvarðardóttirGaldrasveimur á Ströndum

Fyrirlestur Ólínu Þorvarðardóttur
Café Riis, 21. október 2000

 

 

Segja má að tímabilið frá miðri sautjándu öld og fram á þá átjándu hafi verið það myrkasta í réttarsögu þjóðarinnar. Fyrir tilstilli helstu framámanna þjóðfélagsins um það leyti, prófastsins Páls Björnssonar í Selárdal, sem þótti landsins merkasti guðfræðingur, og Þorleifs Kortssonar sem um hríð var annar tveggja lögmanna landsins, var alið á galdraótta og ofstæki sem áttu sér enga líka hérlendis.

Á árunum 1654-1680 lék djöfullinn lausum vestur á fjörðum, einkum í námunda við klerka og sýslumenn í Barðastrandar-, Ísafjarðar- og Strandasýslum, og gengu þeir hart fram í að uppræta galdramenn og fá þá brennda á báli. Eggert Björnsson, sýslumaður í Barðastrandarsýslu (bróðir Páls í Selárdal) var allaðgangsharður, en þó lamb að leika sér við miðað við starfsbróður sinn og síðar lögmann að norðan og vestan, Þorleif Kortsson sem bjó á sínum efri árum hér í næsta nágrenni við Hólmavík, á Bæ í Hrútafirði. Hann hefur verið nefndur „brennuvargur 17du aldar“ (Hannes Þorsteinsson 1922, 89)

Í þeim djöfulsógnum sem urðu á Vestfjörðum gekk ekki hvað minnst á á Ströndum þar sem varð mikill galdragangur með nokkrum hléum á árunum 1652-80, nánar tiltekið í Trékyllisvík. Svæsnastar urðu ásóknir djöfulsins á árunum 1652-54, eins og fram kemur í lýsingum samtímamanna á þeim galdrafeiknum þeim sem gengu yfir Árneshrepp veturinn 1652-53. Ballarárannáll segir svo frá að þá um haustið:

... kom ókyrleiki og plága af vondum anda eður draugi í Trékyllisvík, með því móti, að opt á einum degi og mest í kirkjunni, þá prédikað var, vissu menn ei betur, en hann hlypi ofan í kverkar á fólki, svo það fékk mikla ropa og síðan ofurfylli, en þá það létti af, fann það á sér ekkert mein; fengu það þær kvennpersónur, sem óspilltar píkur voru. (Annálar III, 210)

Ósköp þessi héldu áfram næstu misserin og kvað mest að þeim í sjálfri kirkjunni, eins og fram kemur í Fitjaannál þar sem segir að messa hafi naumlega verið framin fyrir hljóðum kvenna … … mási, froðufalli og ofboði, svo opt voru úr kirkjunni útbornar 4, 5, 10, 12 og fleiri, á einum helgum degi, hvað skelfilegt var, en miklu skelfilegra á slíkt að horfa og nálægur vera. (Annálar II, 174)

Það æði og óþol sem greip um sig meðal kvenna í Árneshreppi þennan vetur og þann næsta á eftir, virðist hafa átt einhverja rót að rekja til stúlku nokkurrar sem um tíma var í vist hjá Þórði Guðbrandssyni í Munaðarnesi. Ekki segir margt af atlæti stúlkunnar hjá Þórði, fyrr en bræður hennar taka hana úr vistinni. Brá þá svo við að hún veiktist og bráði ekki af henni fyrr en hún var færð Þórði til vistar á ný. Hurfu henni þá öll veikindi jafnóðum og hún kom til hans aftur. Þegar hún síðan var tekin af heimilinu á nýjan leik, veiktist hún enn. Af þessu fór af stað illt rykti um Þórð og var hann talinn hafa valdið veikindum stúlkunnar og ennfremur ráðið skammvinnum bata hennar.

Ekki vitum við gjörla hver atburðarásin var, en svo virðist sem nágrannar Þórðar, þeir Egill Bjarnason og Grímur Jónsson hafi dregist inn í þennan galdraróg. Egill átti að hafa drepið sauði og játaði um síðir að … … hafa gert samband við djöfulinn til slíkra erindagjörða, með ristingum, blóðvökvum og naglaskurði, og hvort tveggja gefið andskotanum til sáttmála af sínum eigin líkama. (Ólafur Davíðsson 1940-43, 145-50)

Grímur játaði fyrir héraðsdómi haustið1654 að hafa "giórt mönnum og fienaði skaða með þessum galldra og særingar verkum" og að hafa drepið kind "með diöfullsins meðhialp" (Thott 2110, 4to, II, bl. 13v). Á sama þingi var færður til bókar eiðstafur andvitna hans sem sögðu það sína samvisku að Grímur Jónsson væri sannur sök. Eftir handtöku kvaðst Grímur hafa logið þessu á sig en játaði síðar að hafa "giórt mönnum og fienaði skaða með þessum galldra og særingar verkum" (Thott 2110, 4to, II, bl. 13v). Um síðir kom fram vitnisburður um að hann hefði valdið banvænum veikindum konu einnar, og játaði hann sig þá sekan í öllu sem á hann var borið.

Mál Þórðar var tekið fyrir að Árnesi vorið 1654 og honum dæmdur tylftar eiður fyrir þá fordæðu að vera valdur að veikindum kvenna og "ókyrleika" þeim sem verið hafði í Trékyllisvík misserin á undan.(Thott 2110, 4to II, bl. 11-12). Af Alþingisbókum næsta árs má ráða að Þórður hefur ekki náð fram eiðnum, því Þorleifur Kortsson lætur brenna hann í héraði. Þórður var dæmdur til dauða þann 19. sept. 1654 að Árnesi í Trékyllisvík, en þar játaði hann að hafa séð djöfulinn í tófulíki og sært hann með orðum illum og góðum (sjá einnig Seyluannál (Annálar I, 305); Vallholtsannál (Annálar I, 339); Fitjaannál (Annálar II, 174) og Sjávarborgarannál (Annálar IV, 293).

Ári síðar, eða 1655, voru á alþingi upp lesnir dómar "um þá galdramenn sem brenndir voru í Strandasýslu". Er þar um að ræða þremenningana úr Trékyllisvík, þá Þórð Guðbrandsson, Egil Bjarnason og Grím Jónsson, en ekki þykir ástæða til að nafngreina þá í gerðabók alþingis. Þar kemur hinsvegar fram að:

... bæði lögmenn og aðrir guðhræddir menn, utan lögréttu og innan, ályktuðu, að þeir dómar væru eptir lögum kristilega ályktaðir. (Alþb. VI, 362)

Ballarárannáll segir að eftir brennu þeirra þremenninga hafi orðið hlé "á harmkvælum fólksins fram að jólum" (Annálar III, 212). Það var þó skammur friður, því í sama annál kemur fram að síðan hafi "plágan" komið upp aftur "og öllu meiri en fyr"(Annálar III, 212). Stóð hún enn árið 1655. Þorleifur Kortsson varð hinsvegar landsfrægur af þessu dugnaðarframtaki. Ári síðar gerðist hann enn stórtækur og lét sig þá ekki muna um að brenna tvo menn á sama báli, á sumardaginn fyrsta 1656. Voru það þeir frægu Kirkjubólsfeðgar í Skutulsfirði, Jón og Jón Jónssynir. Hvort Þorleifi hefur þar með orðið nóg um sínar eigin aðgerðir í galdramálum, skal ósagt látið, en nú vill svo einkennilega til, að hann gerist meyr gagnvart kvenþjóðinni í tveimur galdramálum sem rísa í framhaldi af þeim sem nú eru nefnd. Annarsvegar gagnvart Þuríði Jónsdóttur frá Kirkjubóli sem náði fram tylftareið og komst hjá galdrabrennu þrátt fyrir ákæru. Hinsvegar er um að ræða kynsystur hennar sem árið 1655 stóð yfir bálglæðum föður síns í Trékyllisvík. Sú kona hefur tíðast verið nefnd Galdra-Manga, og skal nú nánar vikið að henni.

Galdra-Manga

Árið 1656 var á alþingi lýst eftir Margréti Þórðardóttur brotthlaupinni úr héraði. Var hún sögð: "Vel að meðalvexti, ljósleit, kinnbeinahá, léttfær og skynsöm í máli. Kveður nærri kvenna best" (Alþb. VI, 385). Þessi ljósleita skynsama kona var dóttir Þórðar Guðbrandssonar í Trékyllisvík, í sagnageymdinni þekktust undir viðurnefninu Galdra-Manga, enda spunnust um hana miklar sögur sem á endanum rötuðu inn í þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Mál Margrétar varð að mikilli flækju fyrir alþingi á árunum 1656-1662, og í gögnum alþingis kemur fram að sóknarprestur hennar, sr. Þorvarður Magnússon reyndi hvað hann gat til að liðsinna henni, meðal annars með afar loflegum (en þó einkennilega orðuðum) vitnisburði sem dagsettur er 3. Sept. 1658 (Dómabók Þorl. Kortss: ÞÍ Skjs Öx Thott 2110 II 4to, 40). Af orðum prests verður helst ráðið að Manga hafi vakið með honum eitthvað ákafari tilfinningar en bróðurlegt kærleiksþelið eingöngu. Tildrögin að málaferlum Möngu urðu tilefni þjóðsagna, og í þjóðsögum Jóns Árnasonar eru þau skýrð þannig:

Það bar til í Trékyllisvík á Ströndum þegar prestur sá er Þorvarður hét Magnússon hélt Árnes að þar í kirkjunni undir tíðagjörð fengu sex eða sjö konur aðsvif eða öngvit með froðufalli svo menn urðu að bera þær allar úr kirkjunni; var almennt mælt að þetta væri af fjölkynngi og trúðu menn því. Ærsli þessi voru kennd konu þeirri eða mey sem Margrét hét Þórðardóttir; sumir segja að hún væri dóttir Þórðar þess er talinn var einhver hinn fjölkunnugasti maður á Ströndum; átti nú að taka hana og að líkindum brenna eins og siður var til um galdramenn, en hún gat strokið og duldist síðan á ýmsum stöðum. (JÁ I, 517)

Ekki vissu menn hvar Margrét hélt sig á flóttanum en sögn manna var "að hún hafi verið mjög slungin og séð" (JÁ I, 518). Í þeim tveim sögum sem skráðar eru um Möngu í safni Jóns Árnasonar, gætir samblands af aðdáun og andúð. Fyrri frásögnin lýtur að flótta hennar undan armi réttvísinnar. Er þar saman tvinnað nokkrum frásagnaþáttum sem allir bera þó vott um ráðsnilld hennar og kunnáttu. Meðal annars aðstoðar hún velgjörðarkonu sína við að leyna elskhuga fyrir eiginmanni þeirrar síðarnefndu. Í öðru tilviki fyrirkemur hún draugi sem annarri velgjörðarkonu hennar var sendur í hefndarskyni fyrir hryggbrot í ástum. Um það segir:

... tók Margrét það ráð að hún sjálf svaf fyrir framan ekkjuna, en þegar draugurinn kom að rekkjunni var eins og honum hnykkti við þegar hann vissi Margrétu þar komna, en vildi þó að þeim; varpaði Margrét þá til hans linda sínum, greip hann þá enda hans, en sjálf hélt hún í annan; festist þá draugurinn við lindann. Þá fór Margrét á fætur og teymdi hann, þótt nauðugur væri, alla leið ofan til sjávar. Er þá sagt hún særði hann að fara til heimkynna sinna, og hvyrfi hann við það í sjóinn. Urðu þá fiskimenn síðan varir við hann og kom hann stundum upp í selslíki, var hann auðþekktur á því að hann dró jafnan linda Margrétar; hann gerði oft busl mikið að þeim svo þeim lá við áföllum þangað til Margrét reri með þeim einn dag til fiskjar, og hafði hún þá ekki annað meðferðis en saur í kirnu eða koppi og skvetti hún honum á selinn þegar hann kom upp, og er það sögn að hann kæmi ekki upp framar né yrði að meini. (JÁ I, 518)

Í einni sögunni af Möngu er greint svo frá að kvöld eitt um hávetur hafi hún komið að Stað á Snæfjöllum. Þar bjó þá prestur að nafni Tómas. Á Manga að hafa laumast í fjárhúsin og leynst þar fyrir heimilisfólki en smalamaður á bænum var í vitorði með henni. Dag einn gengur prestur þó inn í fjárhúsin og "sér hún hann nú þótt hann sæi hana ekki" (JÁ I, 519). Bregður þá svo við að klerkur getur sig hvergi hreyft, þegar hann ætlar til bæjarins aftur, og kemst ekki í neina átt nema að dyrunum þar sem Manga var fyrir innan. Síðan segir:

... lízt honum hún fögur og fellir brátt ósjálfráða elsku til hennar. Þau heilsast og talast við. Býður hann henni heim í bæinn með sér og fer hún; en þegar að bænum kom vill hún ekki fara þar inn og biður hann að lofa sér í kirkjuna, og þegar þau koma þar vill hún hvergi vera nema í altarinu og lét hann það eftir henni. Biður hún hann um að geta ekki um sig við konu hans og heitir hann því. Líður nú svo vika að Margrét er í altarinu og prestur færir henni matinn. Veit enginn á bænum af henni nema presturinn. Þegar vika er liðin biður Manga prestinn að lofa sér að sjá konu hans; hann lofar því og fær konu sinni eitthvert erindi í kirkjuna. Þegar konan kemur í kirkjuna sér Manga hana úr altarinu. Konan gengur inn eftir gólfinu. En þegar hún kemur að kórdyrunum sér hún altarið opið og Möngu þar inni; bregður henni svo við sjón þessa að hún hnígur dauð niður. Varð öllum mikið um fráfall konunnar því hún var valkvendi, en alla undraði hversu vel presturinn bar það. Þegar konan var dauð dró Manga sig í bæinn og tók brátt við búsforráðum; leið ekki á löngu að hún þótti þar öllu spilla, bæði á heimilinu og um sóknina. Prestur unni henni mjög og er það sögn sumra að hann gengi að eiga hana og víst er að hann átti barn með henni. (JÁ I, 519-20).

Í raunverunni missti Tómas prestur kall og brauð vegna sambands síns við Margréti enda átti hann með henni fjögur börn í frillulífi, en samkvæmt Stóradómi varð frillulífi refsivert við fimmta brot. Bendir því flest til þess að Manga hafi verið bundin yfir börnum Tómasar á meðan mál hennar velktist fyrir dómstólum. Þau Tómas og Margrét gengu í hjónaband um síðir og hann reyndist henni hið besta í málavafstrinu gegn henni á alþingi; varði hana "af kappi, og þó viturlega" eins og fram kemur hjá Jóni Árnasyni (JÁ I, 520). Sumar sagnir herma að hann hafi "kennt á klækjum hennar ekki síður en aðrir" og að fáum árum liðnum hafi fé hans verið komið að þrotum og hann sjálfur í fyrirlitningu hjá öllum (JÁ I, 520). Af framgöngu hans við að verja hana verður þó ekki annað séð en að kærleikar hafi verið ágætir milli þeirra hjóna þó að ýmsum sögum fari af samskiptum þeirra.

Adrif Möngu urðu heldur nöturleg í munnmælum. Segir sagan að hún hafi verið flæmd burt úr Aðalvík sökum galdra sinna og "gefið það að sök að hún með göldrum hefði tælt prestinn og drepið konu hans" (JÁ I, 520). Fyrir vikið hafi hún verið dæmd frið- og líflaus, "belgur dreginn á höfuð henni og hún flutt inn eftir Snæfjallaströnd og kæfð undir fossinum í Innri-Skarðsá" (JÁ I, 520). Um þetta eru engar heimildir aðrar en þjóðsögur og Manga hverfur þegjandi og hljóðalaust út úr alþingisbókum eftir 1662. Fram eftir þessari öld var talið að þarna hefðu dagar Möngu verið taldir, og mátti af munnmælunum ætla að hennar hafi beðið það grimma hlutskipti að vera tekin af lífi án dóms og laga. Það var því gleðiefni þegar uppgötvaðist að svo ill urðu örlög Möngu þó ekki. Henni skýtur upp aftur í heimildum rúmum fjörtíu árum eftir þessa atburði, nánar tiltekið í manntalinu 1703, þar sem hún er sögð 89 ára, búsett á Lónseyri á Snæfjallaströnd hjá syni sínum, Þórði Tómassyni, 44ra ára. Kemur trauðla til greina að hér sé um aðra konu að ræða en Möngu, svo það er útlit fyrir að hún hafi þrátt fyrir munnmælin orðið allra kerlinga elst (ÞÍ HÞ Æfir 58.b., "Tómas Þórðarson", bls.6; Manntal á Íslandi árið 1703, 227)

En þó að hlutskipti Möngu hafi í reynd orðið annað en henni var ætlað í munnmæum, er af sagnageymdinni ljóst að dómstóll alþýðunnar kvað upp sinn dóm og kom gildismati sínu á framfæri í máli galdrakonunnar alræmdu sem tældi prestinn . Afdrif Möngu í munnmælum eru ekki ósvipuð afdrifum Ljótar kerlingar í Vatnsdælasögu, sem barin var grjóti í hel fyrir tröllskap (Ísl.s. og þ. III 26:1874). Þó er eins og Manga njóti þrátt fyrir allt óttablandinnar virðingar, ekki aðeins ímunnmælum heldur einnig í dómskjölum. Ógleymanleg er mynd þjóðsögunnhar af því þegar hún dregur drauginn á linda sínum og skvettir síðan yfir hann úr kirnunni. Þá er það ekki síður umhugsunarefni hversvegna þessi knáa og léttfætta kona sem "kvað kvenna best" slapp undan galdrabálinu og það í lögsagnarumdæmi ekki afkastaminni manns en Þorleifs Kortssonar. Eitthvað hefur hún haft til að bera sem gerði það að verkum að menn gátu sig hvergi hreyft undan augnaráði hennar; heilluðust af söng hennar, og a.m.k. tveir prestar lögðu æru sína í hættu við að liðsinna henni. Jafnvel sjálfur "brennuvargur" 17du aldar", snerti aldrei hár á höfði hennar. Það varð, þvert á móti, hlutskipti þeirra sem urðu á vegi þessarar sérstæðu konu, að engjast sjálfir í logum þess báls sem hún virðist hafa kveikt innra með þeim.

Heimildaskrá

Handrit:

Í Þjóðskjalasafni:
Skjalasafni Öxarárþings:
- Lögmannsdómabók Þorleifs Kortssonar (ÞÍ Skjs Öx Þorl Kort)
- Thott 2110 II 4to (ÞÍ Skjs Öx Thott)
Hannes Þorsteinsson: "Tómas Þórðarson". Æfir lærðra manna, 58. bindi (ÞÍ HÞ Æfir 58).

Útgefnar heimildir:

Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-98.
Hannes Þorsteinsson 1922: "Minning sjera Páls prófasts Björnssonar í Selárdal." Skírnir (96), 53-92.
Íslendingasögur og þættir I-III. Bragi Halldórsson, Bergljót Kristjánsdóttir, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson sáu um útgáfuna. Reykjavík 1987.
Jón Árnason 1954-61 (safnaði): Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I-VI. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík.
Manntal á Íslandi árið 1703 - tekið að tilhlutan Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík 1924-47.
Ólafur Davíðsson 1940-43: Galdur og galdramál á Íslandi. Reykjavík.
Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík.


botn_haus

síðast uppfært 23.05.2007 <=========> vefhönnun: sigatlas
© strandagaldur - höfðagata 8-10 - 510 hólmavík - galdrasyning@holmavik.is - sími 451 3525