Untitled Document
- SATOR ~ AREPO ~ TENET ~ OPERA ~ ROTAS -
 

Heimur í hrafnshöfði
Um hugmyndaheim Jóns lærða

 
haus


Heimur í hrafnshöfði -
Viðar HreinssonUm hugmyndaheim Jóns lærða


Fyrirlestur Viðars Hreinssonar
Café Riis, 25. nóvember 2000

 


Íslensk bókmenning

Það er kannski ástæðulaust að senda mann að sunnan til að segja Strandamönnum að heimurinn sé ekki allur þar sem hann sýnist. En ég hef skoðað dálítð verk Jóns lærða og hvaða skilning hann lagði í heiminn í kringum sig. Á 17. öld var heimsmynd manna dálítið frábrugðin skynbragði okkar upplýstra og vel menntaðra nútímamanna.
Á miðöldum hafði löngum ríkt föst og kerfisbundin heimsskipan. Guð almáttugur hafði allan höfundarrétt á því kerfi og mennirnir gátu í besta falli túlkað þá skipan sem sett var af almættinu. Það var í raun einungis hægt að túlka alla tilveruna í ljósi þess, hvaðeina sem fyrir augu bar í efnisheiminum var einskonar endurvarp hins æðsta sannleika.
Það hefur oft verið hæðst að svokallaðri skólaspeki síðmiðalda sem þótti löngum eltast við skottið á sjálfri sér. Engu að síður var þetta um margt háþróað hugmyndakerfi þar sem hverju fyrirbæri tilverunnar var skipaður staður í stigveldi sem náði frá grjóti til guðs. Ritverk sem sett vóru á bókfell vóru einungis staðfesting eða túlkun þessa æðri sannleika. Það er ein meginskýring þess að höfundar miðaldabókmennta létu oft undir höfuð leggjast að geta nafns síns, menn vóru að skrá fyrirfram gefinn sannleika, en ekki búa neitt til.

Sérstæðar aðstæður á Íslandi gerðu það að verkum að forn sagnarit vóru á skjön við þessa heimsmynd. Keimur hins áþreifanlega veruleika er þar sterkari en í öðrum bókmenntum frá miðöldum. Um leið mótaðist bókmenning sem var sérstæð því hlutur sjálfmenntaðra leikmanna var meiri en annars staðar, þar sem klerkar réðu bóklegum menntum.
Með endurreisninni á 16. öld leystist þessi heimsskipan upp og viðmiðanir tilverunnar sigu af himnum niður til jarðar. Maðurinn varð brátt mælikvarði í stað guðs. Þetta þótti mörgum upplausn, „heimurinn er úr liði" ortu skáld í útlöndum á þessum tíma. Jón lærði gat tekið undir það. En þetta var ekki upplausnin ein, heldur mótaðist nýtt veruleikaskyn. Menn tóku veruleikann nýjum tökum og Jón er dæmigerður fyrir þau umskipti.

Í kjölfar siðaskipta og húmanisma á Íslandi í lok 16. aldar og á 17. öld varð mikil endurnýjun í menntum og þekkingu svo segja má að þar hafi nýtt landnám hafist. Landið og sagan urðu að fræðilegu viðfangsefni með mælingum á hnattstöðu, kortagerð og Íslandslýsingum. Bókmenntahefðin fékk nýtt hlutverk þegar skólamenn eins og Arngrímur lærði tóku að kanna forn sagnarit. Nöfn skálda og fræðimanna stigu nú fram úr þokunni, í stað nafnlausra fornsagnahöfunda. Það vóru æði oft sjálfmenntaðir leikmenn sem tóku virkan þátt í varðveislu bókmenntaarfsins með margvíslegum ritstörfum. Helstu lærdómsfrömuðir landsins eins og t.d. biskuparnir fengu þessa fróðleiksmenn sér til aðstoðar. Þrátt fyrir það má víða sjá í ritum skólagenginna manna nokkurn hroka í garð hinna sjálfmenntuðu. Þessi fræðaástríða alþýðufræðimanna er afar sérstæð og þekkist varla annarsstaðar, enda er mjög erfitt að útskýra þetta fyrir útlendingum, sem stundum skilja hreinlega ekki að svona nokkuð geti verið til.

Fremstir þeirra sjálfmenntuðu manna sem lögðu af mörkum á fræðasviðinu vóru jafnaldrarnir Björn Jónsson annálaritari á Skarðsá og Jón lærði, báðir fæddir 1574. Í latnesku bókmenntasöguriti, Recensus, er lagt mat á hæfni Björns og rætt um kostgæfni hans og hugvit þó oft hafi honum slegið feil. Jón lærði er sagður skáld í meðallagi en einkum er staldrað við hjátrú og galdra hans. Björn og Jón eiga annars fátt sameiginlegt. Kjör þeirra vóru ólík og viðfangsefnin einnig þótt þau sköruðust eitthvað.

Ævi Jóns lærða

Ævi Jóns lærða var rysjótt og viðburðarík. Hann fæddist í Ófeigsfirði á Ströndum, afkomandi Svarts skálds Þórðarsonar að eigin sögn, en eitthvað var hann í uppvexti sínum hjá Jóni Hákonarsyni föðurbróður sínum. Meðal forfeðra hans vóru bændur, höfðingjar og prestar. Hann hefur trúlega alist upp við bóklega iðju og fór snemma að skrifa upp bækur og varð fljótt listaskrifari. Árið 1600 kvæntist hann Sigríði Þorleifsdóttur og þau hófu búskap á Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði vorið eftir. Líklegt er svo að hann hafi að mestu verið á Skarði á Skarðsströnd og eitthvað í Bjarneyjum og Ólafseyjum á árunum 1605-11.

Það fór snemma af honum fjölkynngisorð. Hann átti í stöðugum útistöðum við myrkraöfl þessa heims og annars. Fyrstu afrek hans á því sviði vóru að kveða niður drauga sem stunduðu grjót- moldar- og beinakast á Snæfjallaströnd árin 1611-12. Fyrst kvað Jón frekar hófstillt kvæði, Fjandafælu, en síðan Snjáfjallavísur, eitt mergjaðasta særingakvæði sem varðveitt er á íslensku og það dugði og draugurinn hefur ekki sést síðan.
Næstu árin er hann eitthvað á heimaslóðum og var um hríð í Stóru-Ávík en árið 1615 lenti hann í útistöðum við veraldlega valdsmenn eftir að hann dró taum baskneskra hvalveiðimanna sem urðu skipreika á Ströndum og vóru drepnir eftir hrakninga um Vestfirði. Ari sýslumaður í Ögri stóð fyrir drápunum og Jón bakaði sér óvild hans þegar hann ritaði fræga frásögn af þessum svokölluðu Spánverjavígum. Fyrir það varð hann fyrir rógi og andróðri, missti eigur sínar 1616 og þá upphófust margra ára hrakningar.

Fyrst hrökklaðist Jón suður á Snæfellsnes þar sem hann dvaldi um árabil í skjóli Steinþórs sýslumanns Gíslasonar. Sögur herma að þar hafi hann starfrækt galdraskóla og fyrir þær sakir sætt árásum Guðmundar prests Einarssonar sem ritaði bæklinginn Hugrás gegn galdrakukli Jóns og viðhorfum. Einhvern tíma á þessum árum hefur Jón trúlega komið að Hólum og lánast að stunda þar fræðastörf, og koma Guðmundi syni sínum á skólann þar. Guðmundur útskrifaðist 1623. En frá Snæfellsnesi hraktist Jón lengra suður, í skjól Árna Gíslasonar á Akranesi, bróður Steindórs. Jón naut oft velvilja hinna víðsýnni manna í röðum valdsmanna, veraldlegra sem geistlegra, þótt hann ætti í útistöðum við aðra.

Guðmundur sonur Jóns fékk Hvalsnesþing og náði sér í stúlku sem verið hafði vinnukona hjá Ólafi Pedersen, umboðsmanni konungs á Bessastöðum. Ólafur reyndi að fleka stúlkuna en þeir feðgar vóru ekki á því að láta hann komast upp með það. Fyrir þær sakir lentu þeir í illvígum útistöðum við Ólaf, eða Náttúlf eins og Jón kallar hann. Ólafur lét dæma Jón útlægan fyrir galdrakukl árið 1631. Sönnunargagnið var lækningakver, Bót eður viðsjá við illu ákasti. Það hafði að geyma þrjátíu ráð gegn illri ásókn af ýmsu tagi. Næstu árin vóru Jón og Sigríður á stöðugum hrakningi og fóru meðal annars um Norðurland til Austfjarða. Um skeið dvaldi hann í Bjarnarey úti fyrir Héraðsflóa.

Árið 1636 sigldu þeir feðgar utan til að fá leiðréttingu sinna mála. Jón var í fangelsi um hríð en kom í apríl árið 1637 fyrir háskólaráð Hafnarháskóla sem yfirheyrði hann og mæltist síðan til þess að málið yrði rannsakað og dæmt að nýju á alþingi. Konungsbréf þar að lútandi var gefið út í maí. Það var gert en útlegðardómurinn var einungis staðfestur. Björn á Skarðsá var einn þeirra góðbænda sem þá sátu í lögréttu, en ekkert er vitað um afstöðu hans til Jóns. Svo virðist sem Jón hafi ekki átt fyrir farinu úr landi og enginn tímt að borga undir hann svo að lokum var á það sæst að hann fengi að vera í friði á Austfjörðum það sem eftir væri. Þar dvaldi hann á smákotum til æviloka, eitthvað hjá Guðmundi syni sínum, og að líkindum hefur Brynjólfur biskup Sveinssonar borið blak af honum og hvatt hann mjög til fræðaiðkana. Jón eignaðist son á gamals aldri fyrir austan. Þjóðsagan segir að þegar hann var á Hjaltastað hjá Guðmundi syni sínum hafi sótt á hann fótakuldi svo mikill að kvenmaður hafi verið látinn vera á fótum hans og það hafi endað svona, með barngetnaði. Barnið var piltbarn og hét Jón. Han var kallaður litlilærði og sama þjóðsaga segir að hann hafi aldrei verið við konu kenndur né átt barn. Hann hafi hins vegar mjög sóst eftir að þukla um kvenfólk hvar sem hann fór.

Fítónísk forvitni

En hvernig náungi var svo Jón? Æviágripið sýnir að hann hefur lent í ýmsu. Hann var náttúrlega forfallinn bókaormur eins og þeir hafa gerst bestir á Íslandi um aldir. Í kvæðinu „Í Arnasafni" fjallar Jón Helgason skáld og prófessor um þá iðju sína að vinna með „eljuverk þúsunda varðveitt á skrifuðum blöðum" þ.e. hinn forna handritaarf. Honum finnst stundum skrifarinn standa við hlið sér og fer þá að bera saman kjör sín og hans:

Ólík er túninu gatan og glerrúðan skjánum,
glymjandi strætisins frábrugðin suðinu í ánum,
lífskjörin önnur, en fýsnin til fróðleiks og skrifta
fannst okkur báðum úr dustinu huganum lyfta.

Vatnsfallið streymir af ókunnum öræfaleiðum,
andblærinn líður um túnið af fjarlægum heiðum,
kveiking frá hugskoti handan við myrkvaða voga
hittir í sál minni tundur og glæðist í loga.
(Úr landsuðri: 80-81)

„Fýsnin til fróðleiks og skrifta" hefur löngum verið kjölfesta í íslenskri menningu. Víst er að letur fyrri tíðar manna hefur einatt hitt tundur í sálum manna og glæðst þar í mikla loga. Minjar fortíðarinnar eru geymdar á blöðum sem oft á tíðum eru snjáð og velkt, en þegar í þau er rýnt má finna þá drætti sem sameinað geta hugi manna yfir aldirnar, og glætt loga á hverjum nýjum tíma, þótt umhverfi, lífskjör og staðhættir breytist.

Öldum saman gengu skráðar sögur, kvæði og annar fróðleikur milli manna, jafnt almúgafólks sem lærðra. Sögurnar vóru lesnar og skrifaðar upp, endursamdar, þær kveiktu nýjar, og héldu við meðal fólks einhverri undarlegri löngun til að ná sér í bækur og lesefni og melta það, vinna úr því. Þessi bóklega iðja ræktaði með mönnum gagnrýninn hugsunarhátt og lífssýn sem gat orðið valdsmönnum óþægur ljár í þúfu. Óvíða birtist fróðleikslöngunin með einfaldari og um leið skáldlegri hætti en einmitt í orðum Jóns lærða. Hann sagði í sambandi við siðaskiptin í ritinu Tíðfordrífi:

Þegar rökkursbýsnunum með ráni kirkjunnar, hennar silfurs og dýrgripa, rigndi yfir Skálholt, og bækur foreyddar, hafði ein bók borist í mína sveit; á hana lærði eg ungur. (ÍB 35 fol:53)

Fyrr í sama riti sagði hann um bækur:

Þó ég sæi þar lítið af í ungdómi mínum var enginn til mig að fræða. En allmargir að banna og forbjóða pápískar bækur að hafa, eða í þeim nokkuð að hugleiða, þar þó margt í flaut. (ÍB 35 fol:7)

Jón var ekki einungis að tína upp það sem í bókunum flaut, heldur fylgdi sterk tjáningarþörf fróðleiksástríðunni. Hann skrifaði því margt sem telja má með því allra sérstæðasta í íslenskri menningar- og bókmenntasögu. Hrakningar hans stöfuðu vissulega af því að hann var ekki alltaf að feta fyrirfram troðnar slóðir.
Skemmtilegur vitnisburður um fróðleiksfýsn hans eru orð hans um „fítóníska forvitni" og „tíðinda sjónir" í riti sem hann skrifaði fyrir Brynjólf biskup um Eddu:

Til dæmis, hjá oss kallast menn ramskyggnir, þó grannvitrir séu og með öllu ólærðir, en þó ekki allir og fær það hver af öðrum og má líka stilla ef ofsjónir verða miklar. Hvað langt mun þar yfir hafa gengið forðum, fítonísk forvitni þeirra heiðnu spekinga, ellegar Tróverskra Asíu manna. Nokkrir hér með oss hafa og haft tíðinda sjónir, þó ekki svo sem leiddir heldur svo sem í doða og magnleysi nokkru. Einn soddan maður guðhræddur, fátækur, ólærður var í sveit minni, og andaðist mannfallsárið 1602. Honum voru birt stór tíðindi um þetta land. Svo sem mannskaðar, skiptapar og afgangur manna, með hverjum atburð varð og þó stundum fjórum mánuðum fyrr en skeði sem upp komst Axlar morð. Hann sá og daglega standandi og vakandi teikn nokkuð yfir hvers manns höfði, hvar á hann nokkurn vara og mark tók (Einar Gunnar Pétursson: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða II:53).

Hin "fítóníska forvitni" virðist vera skyggni, náskyld forvitni Jóns sjálfs og áhuga hans fyrir ófreski ýmiss konar.

Uppréttur fróðleiksmaður

Í riti sem kallast Um ættir og slekti lýsir Jón skáldinu og höfðingjanum Staðarhóls-Páli, sem þekktur er fyrir að krjúpa bara á annað hnéð fyrir kóngi, hann sagðist krjúpa fyrir hátigninni en standa á réttinum:

Pál þann hef eg vitað og reynt einn vísastan mann á mínum dögum. Eg átti ekki kosti að fara til hans; hann vildi gjarnan hafa mig, sagðist hafa fundið þann mann í sínu slekti, ungan og næman, sem sér líkaði. Eg var þá vel tvítugur á Ósi í Steingrímsfirði. Páll var eitt útvalið skáld, ofbjóðanlegur í orðum og lét fátt ótalað, allra manna ófalskastur, útlærður í Múnkaþverárklaustri forðum, fekk eina Þorkelsbók, og sagðist hafa fengið hana Magnúsi bróður sínum, því hann hefði verið beztur og guðhræddastur þeirra. Hann taldi hið mesta níðingsverk að vinna með djöfulskap og fjölkyngi í leyni, en hann kenndi sig þar í út lærðan. / ---/ Hann taldi sér aldrei minnkun að bæta og biðja vægðar fyrir sinn misgjörning. Það gera nú fáir höfðingjar á Íslandi. Hans náttúra var miklu betri en orð stór. (Safn til sögu Íslands III:703-4)

Hér er náttúrlega verið að segja frá einu bókarkorni en fyrst og fremst er þó verið að lýsa manni sem var stór í sniðum. Einhvern veginn finnst mér að Jón sé kannski að lýsa sjálfum sér öðrum þræði, eða í það minnsta þeim mannkostum sem hann mat mest. Víst er að hann hefur verið hreinskiptinn og hann fór ekki í felur með galdraiðkun sína. Og rétt eins og Páll lét fátt ótalað, þá hikaði Jón ekki við að gagnrýna það sem honum þótti miður fara. Það kom honum nátturlega í koll við upphaf rithöfundarferilsins, þegar hann skrifaði Sanna frásögu af spanskra manna skipbrotum og slagi eins og rit hans um Spánverjavígin heitir. Þar reynir hann að segja satt og rétt frá hryllilegum atburðum og draga ekkert undan.

Líklegt er að Jón hafi senn verið mælskur og höfðingjadjarfur, því þrátt fyrir ofsóknir sumra höfðingja naut hann hylli annarra. Í bréfaskiptum séra Magnúsar í Laufási og hins þekkta danska fornfræðafrömuðar Ole Worms á árunum í kringum 1630 minnist Magnús öðru hvoru á Jón sem hann segir að muni vera allfróður um rúnir. Vera kann að síðar hafi Jón komið við í Laufási á hrakningum sínum norður og austur um land. Hefðu þeir þá getað skeggrætt nokkuð um sameiginleg hugðarefni sín.

Þessi bréfaskipti sýna einnig að þegar Jón kom til Kaupmannahafnar að fá leiðrétting mála sinna hafi Ole Worm þegar haft veður af þessum undarlega lærdómsmanni uppi á Íslandi. Fullvíst er að þeir hittust í Kaupmannahöfn því árið 1636 var Ole Worm kosinn rektor Hafnarháskóla, og hann var samkvæmt bókunum háskólaráðsins viðstaddur yfirheyrslurnar tvær 12. og 15. apríl 1637. Þær eru prentaðar í riti Einars Gunnars Péturssonar um Jón lærða. Af bókuninni má sjá að Jón hefur svarað greiðlega spurningum ráðsins. En hvort þeir hafi hist persónulega verður seint fullsannað. Jón prófastur Halldórsson í Hítardal gefur það berlega í skyn að Jón hafi beinlínis vafið Ole Worm um fingur sér:

Eptir það fór Jón huldu höfði utan til Danmerkur, og af því kunnugur var í rúnum og þessháttar stafrófi, sömuleiðis Eddukenningum og þar með raupsamur og skrafinn, þá gat hann komið sér í tal við þann hálærða mann D[r.] Olaf Worm og fleiri og talað svo fyrir þeim, það þeir meintu hann engar óleyfilegar konstir, heldur náttúrlegar og leyfilegar hefði um hönd haft, en af öfund og þekkingarleysi fólks hér í landi, liðið svo stóran órétt, að flýja hefði orðið til kongl. náðar (Biskupasögur II: 87).

Líklega er Jón að vísa til yfirheyrslunnar. En vegna kunnáttu Jóns lærða í rúnum, sem Worm hafði mikinn áhuga á, er ekki óhugsandi að prófessorinn hafi a.m.k. dregið Jón eitthvað afsíðis að spyrja um þau efni. Það hefur þá verið undarleg uppákoma, hálærður rektor Hafnarháskóla í læri hjá ótíndum sakamanni, sjálfmenntuðum og margkunnandi Strandamanni sem sjálfsagt hefur verið sæmilega borubrattur.
Til marks um virðingu lærðra manna fyrir Jóni má líka nefna að Brynjólfur Sveinsson minntist á hann í bréfi til Ole Worm árið 1649. Hann kvartar yfir að orðið sé fátt um rúnafróða menn. Arngrímur horfinn af sjónarsviðinu og Jón lærði, grafinn í skuldum frekar en kvaddur með virðingu, eldist í afkima gagnslaus sjálfum sér of öðrum. Og Björn á Skarðsá orðinn blindur og þar með gagnslaus til fræðistarfa. Það er athyglisvert að af þeim þrem rúnafræðingum sem Brynjólfur nefnir eru tveir óskólagengnir, þeir Björn og Jón.

Meira liggur eftir Jón af frumsömdu efni en flesta aðra almúgamenn á þessum tíma. Mikið af kveðskap hans er óvenjulegt, hann orti t.d. ævikvæðið Fjölmóð sem er 494 erindi og sérstætt, mun hvassara og bitastæðara en ævikvæði Einars í Eydölum sem er eina kvæðið þeirrar tegundar eldra en Fjölmóður. Frásögn Jóns af Spánverjavígunum er meðal þess fyrsta sem ritað var á íslensku um samtímaviðburði á síðari öldum og rit hans Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegu náttúrur er fyrsta frumsamda rit á íslensku um náttúrufræði. Frumleiki Jóns endurspeglast í orðfæri hans sem út af fyrir sig er verðugt rannsóknarefni því að hann bjó til töluvert af orðum og hugtökum.

Huliðsheimar og siðferði

Í skrifum Jóns spretta fram margvíslegar hugmyndir, heilu heimarnir lifnuðu við í hugskoti hans. Fornsögurnar leiddu hann til dæmis á vit ódáinsakra í óbyggðum. Í riti Jóns um Íslands aðskiljanlegu náttúrur er merkileg klausa um þau efni:

Í vorum gömlu Íslands landnámsbókum skrifast margt um aðskiljanlegar náttúrur landsins, einnin um þá heiðnu vísu formenn, sem hingað komu frá Hálogalands, Finnmerkur og Gandvíkur endimörkum, þann tíð sem Ísland var í byggingu og nokkrir komu síðar. Þar í bland voru nokkrir sem lært höfðu Dofra konstir (sá búið hafði í Dofrafjöllum í Noregi). Þeir kunnu jörð og berg að opna og aftur að lykja, þar úr og inn að ganga, so sem að voru þeir Bárður í Jökli, Hámundur í Hámundarhelli, Bergþór í Bláfelli, Ármann í Ármannsfelli, og Skeggávaldi sem fann Áradali, og gjörðist guð yfir, því so biður þar fólkið: Skeggávaldi skygg þú yfir land þitt, so ekki verði Áradalir fundnir. Slíkir gamlir formenn útvöldu sér í soddan leynifylgsnum, hellum eður fellum að búa, so þeir væri helldur frí fyrir öllu ráni, öfund og ásóknum landsins innbyggjara, því annars hefðu þeir ekki kunnað frið að hafa með sína náttúrusteina, nægt silfurs og annars málms í jörðu vitandi, með þeim góðu áfengu vínberjum og ölkeldum, sem bernskir menn hafa fundið bæði að fornu og nýju, og ei verður með sönnu neitað. (Islandica XV:1-2)

Þessir upphafsmenn útilegumannabyggða í yfirskyggðum plássum settust að fyrir utan mörk mannlegs samfélags. Í þessari hugmynd er hvass gagnrýnisbroddur í garð samtímans því þeir vóru í raun að stofna útópískt fyrirmyndarsamfélag. Og hugtakið bernskur er afar merkilegt. Yfirleitt þýddi það bara treggáfaður á tímum Jóns, en hér táknar það nánast ófreski eða innsæi, opinn huga frammi fyrir undrum tilverunnar sem Jón er sjálfur afar skyggn á í smáu og stóru.

Ýmsar aðrar hugleiðingar Jóns kveiktu furðulega heilsteypt siðferðishugtök. Hann hélt refsivendi orðsins yfir samtíð sinni eins og sjá má meðal annars í ævikvæði hans Fjölmóði. Fjölmóður þýðir reyndar spörfugl. Í því kvæði gagnrýnir hann einkum þá lausung sem honum þótti fylgja siðaskiptunum:

Nú leika hofmenn
á hjóli sínu
heims undir höfðingjans
hávu merki,
en krossburðar
kvaldir aumingjar
böl sitt bera
til betri vonar.

Kápur láta sníða
Kalvíns hópar
eftir lystingum
og losta prýði,
þykir skrautlega
skína á mörgum,
það alfríið síðan
af sér fæðir.

Hvað hugskotseyrun
heyra stundum
eða augun andar
út fá skoðað,
nefna má ekki
í nýrri öldu;
gert er að því gamla
gys með spotti.
(Safn til sögu Íslands V.3:32-3)

Sett var orðhelgi
í stað verka,
gerðu það vorir
góðu þýskir,
mætti það duga,
að munnur pulaði,
þó að ávextir
aldrei sæjust.
(Safn til sögu Íslands V.3:80)

Í þessum erindum má sjá hugmyndir Jóns um hugmyndaflug eða innri sýn, sem hann kallar hugskotseyru og augu andar. Það tengir hann við fyrri tíma og telur eiga mjög í vök að verjast í samtíma sínum. En hér eru líka tvö stórmerkileg heimasmíðuð hugtök Jóns, alfrí og orðhelgi. Alfrí er einkennisorð hans fyrir þá siðferðislegu lausung sem honum þótti fylgja nýjum siðum, það þýðir frelsi án ábyrgðar, sem við köllum nú bara frjálshyggju í dag. Orðhelgi á við þann vonda, en algenga löst að halda að orð vegi þyngra en athafnir, að upphefja sjálfan sig í orðum frekar en með gerðum sínum. Ekki er annað að sjá en að hann hafi mótað þessi hugtök sjálfur og þeim bregður víða fyrir í verkum hans.

Jón kallar alfrí á einum stað „sjálfsetta reglu" og því hefur það merkingu allnærri þeirri sem sjá má bæði í orðabók Jóns Grunnvíkings, "libertinisme" (sem mun reyndar vera 18. aldar hugtak) og orðabók Blöndals, "töjleslös frihed." Líklega hefur Jón Grunnvíkingur hugtakið úr ritum Jóns lærða, í bókmenntasögu hans má sjá að það hefur orðið honum nokkuð hugstætt, því þar er póstur um kaþólsk viðhorf Jóns lærða, að hann virðist kalla Lútherskuna alfríis öld, gagnstætt hinni fyrri öld sem hann kenndi við siðugan lifnað.

Alfrí er því siðferðislegt sjálfdæmi þeirra sem valdið hafa, óháð öllum æðri og almennum siðferðisreglum. Það er upplausnarhugtak og lýsir því siðferðisástandi sem verður þegar siðalögmál samfélagsins eru í upplausn, rétt eins og frjálshyggan sem veður uppi í dag. Það má jafnvel tengja það við jafnaðarhugmyndir Jóns, en hjá honum einum virðist orðið jöfnuður hafa eitthvert félagslegt eða siðferðislegt inntak. Í Ármanns rímum segir hann:

Réttan jöfnuð ríks og fátæks milli leitað hef eg um lönd og sjó, leizt mér ekki að finna hann þó (Ármanns rímur:38).

Það er þó ástæðulaust að koma Jóni fyrir í Samfylkingunni út á þessa yfirlýsingu. Með því að tala um "réttan jöfnuð" milli ríks og fátæks á hann trúlega við félagslega stöðu eða virðingu, frekar en efnahagslegan eða stéttarlegan jöfnuð.

Það er torvelt að sjá hvort uppi vóru á 17. öld einhverjar mótaðar hugmyndir varðandi alfrí eða jöfnuð. Algengasta siðferðisádeila á 17. öld var á lágstéttir, fyrir leti og hroka, eða á höfðingja fyrir misbeitingu valds og ríkidæmis. "Hvað höfðingjarnir hafast að / hinir ætla sér leyfist það," sagði Hallgrímur. Ádeilu á höfðingja má rekja aftur til Heimsósóma Skáld-Sveins sem var uppi um 1460-1530. Vera má að þær samræmist jafnaðarhugmynd Jóns þannig að gert sé ráð fyrir að ríki ákveðið jafnvægi milli þjóðfélagsstétta, þ.e. réttur jöfnuður, en menn hafi hneigst til að raska því jafnvægi. Þá gæti jöfnuður þýtt hjá Jóni einskonar andstæðu við alfrí, jafnvægi þar sem menn gæta siðferðislögmála, en alfrí væri það ástand sem skapast þegar jafnvæginu er raskað.

Hugtökin alfrí og orðhelgi má rekja beint til siðaskiptanna. Orðhelgi miðast við þá lúthersku kennisetningu að mannlegar athafnir gefi enga von um sáluhjálp. Þess í stað var krafist ýtrustu undirgefni, án nokkurrar tryggingar fyrir sáluhjálp, sem hafði í för með sér að menn hneigðust til að trúa í orði en ekki í verki. Siðferðishugmyndir Jóns sýna einlæga sannleiksleit, sem hélst í hendur við gagnrýna afstöðu til samtímans. Í Edduriti sínu segir hann til dæmis.

Bágt er að lýsa blindan heim
bót á lýtum verður treg
sköll og halli skýst að þeim
sem skoða vill réttan sannleiks veg.
(Einar Gunnar Pétursson: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða II:53).

Siðferðisgagnrýni Jóns sýnir samspil milli gagnrýnins skilnings og bernskrar skynjunar sem einkennir hugmyndaheim þess almúga sem ósnortinn er af sundurgreinandi hugsun formlegrar menntunar. Allstaðar í ritum Jóns má sjá hvassa gagnrýni samþætta bernskri skynjun. Þar er blandað saman því sem nú kallst hindurvitni annars vegar og skarpri athyglisgáfu hins vegar. Þekking Jóns eða skilningur er á mörkum tveggja heima eða heimsmynda; miðalda, þar sem miðlun þekkingar var háð kennivaldi, og þeirrar raunhyggju sem lagði hornstein að heimsmynd nútímans. Algengt er að alþýðumenning eða hugarfar alþýðu fyrr á öldum sé skilgreint sem jarðbundið og laust við óhlutbundnar eða háspekilegar vangaveltur lærðra manna. En um leið eiga alþýðumenn það til að rífa slíkar hugmyndir niður, komist þeir í þær á annað borð. Óbrotnir alþýðumenn eru einfaldlega nær hinum áþreifanlega veruleika og hringrás lífsins en fræðimenn í fílabeinsturnum.

Hugskotseyru og augu andar

Hins vegar var Jón einatt að grúska í dulspeki sinnar tíðar, hvítagaldri og öðru, í óþökk yfirvalda. Hann talaði um þekkingu „þeirra gömlu", þ.e. fróðleik fyrri tíðar, og trúði á leiðslur, loftlíðendur og hólgöngur, að menn kæmust í leiðslu og gætu þannig skoðað jörðina að innan. Hann kannaði náttúruna, með aðferðum sem í senn benda fram til nútíma vísindahyggju, og aftur til kaþólskrar dulspeki. Hann trúði t.d. á töfrasteina sem var að finna í hrafnshöfðinu, pétursskipinu. Þeir vóru leyndardómsfullir eins og sjálf Eddufræðin. Fyrsta erindið í kvæði í Edduriti Jóns hljóðar svo:

Öll mun í krumma kolli
krókótt liggjandi flókar
heilans höfum sjö deili
hitt að svo eru settir
stein fá seggir sénan
sumir eignast hann gumar
í Eddu er eins og buddu
ýmis dáð eða sviminn.
(Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða II:14).

Jón segir í Tíðfordrífi að hrafninn sé viðsjárverður fugl, grimmur og kænn með 9 heilabú þótt Jón segist reyndar bara hafa fundið 7 við krufningu. Í hrafnshöfðinu leynist töfrasteinn og svo virðist sem Jón telji Eddu flókna á við sjöfaldan hrafnsheila. Þar að auki sé efni hennar tvírætt, bæði gott og illt eins og í buddunni, þ.e. pétursskipi sem er hylki utan um egg skötunnar. Í Tíðfordrífi segir að skatan hafi níu "neytar náttúrur" og níu "ónáttúrur." Hrafninn og skatan eru því tvíræð dýr, gædd bæði skaðlegum og gagnlegum eiginleikum.

En klausan sem fyrr var vitnað til um bókina sem Jón lærði á ungur heldur svo áfram: Þar var sagt nokkuð um það fyrsta hagleiks berið sem föðursins orð og andi útblés og auglýsti með sköpun og aðgreiningu allra hluta, hvað hans guðdómur hafði þar inni hulið, hvað enginn fullskoðað fær meðan menn byggja heim þennan. Ásamt þeirri aðgreiningu sköpunarinnar hefði hann plantað ofarst og hæst aldinanna ófölnandi jörð, lystigarðinn Paradís, svo sem blómstur eru gjarnan efst á viðum og grösum. (ÍB 35 fol: 33-4)

Þetta hagleiksber er töfrasteinninn bezóar, inni í honum hafði guðdómurinn falið leyndardóma lífsins. Gamlar bækur sem Jón hafði lesið sögðu að töfrasteinninn leyndist í hrafninum. Jón fylgdist sjálfur með atferli hrafna heima á Ströndum og var eitt sinn sannfærður um að hrafnsungi hefði lifað af hrakninga vegna þess að hann hefði verið lífgaður með lífsteini. Hann nefnir líka Þórð nokkurn Hinriksson sem hefði fundið slíkan stein í hrafnshöfði, hvort sem það var nú lifsteinn eða ekki, en ekki viljað láta af hendi. Það var þegar Jón var í haldi á Kvalastöðum, þ.e. Bessastöðum, hjá Ólafi umboðsmanni konungs. Þá hafi Ólafur drepið fjölda hrafna en aldrei fundið stein, hvorki í fóarni né heila.

Það er frekar ógreinilega frá þessu sagt, enda er Jón að svara spurningum Brynjólfs biskups í Tíðfordrífi, þar sem þetta stendur. En ljóst er þó að hann trúði á töfrasteina, að þeir byggju yfir huliðsheimum, og væri kannski að finna í hrafnshöfðum þó hann fyndi þá aldrei sjálfur. Það má því líta á þessa iðju Jóns sem táknmynd fyrir þá mannlegu forvitni sem stöðugt skoðar og ræður í heiminn og leyndardóma hans, í þeirri vissu að hann sé alltaf margbrotnari og flóknari en við getum komist að með vísindalegri könnun og merking hans sé margræðari en svo að hún verði læst í kennisetningum. Jón er líka áminning til okkar um að samfara opnum huga frammi fyrir undrum tilverunnar þurfi menn að vara gagnrýnir frammi fyrir samfélagi sínu og samtíð.

Heimildir

Við samningu þessa pistils hefi ég stuðst mjög við ritgerð mína, „Tvær heimsmyndir á 17. öld. Snorra Edda í túlkun Jóns Guðmundssonar lærða (1574-1658)", Guðamjöður og arnarleir ritstj. Sverrir Tómasson, Reykjavík 1996:117-63. Þar er allítarleg heimildaskrá, en mest hefur verið sótt í eftirfarandi rit, sem einkum eru útgáfur á ritum Jóns:

Einar G. Pétursson. Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I-II, Reykjavík 1998.

Jón Guðmundsson. Ármanns rímur. Íslensk rit síðari alda I, Útg. Jón Helgason, Kaupmannahöfn 1948.

Jón Guðmundsson. „Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegu náttúrur" Útg. Halldór Hermannsson, Islandica XV, New York 1924.

Jón Guðmundsson. „Fjölmóður" Útg. Páll Eggert Ólason, Safn til sögu Íslands V.3., Reykjavík 1916: 1-92.

Jón Guðmundsson. "Sönn frásaga af spanskra manna skipbrotum og slagi." Spánverjavígin 1615.

Íslensk rit síðari alda 4, Útg. Jónas Kristjánsson, Kaupmannahöfn 1950.

Jón Guðmundsson. „Um ættir og slekti sem og annað fleira nokkra manna á Íslandi, uppteiknað eptir Jóni sáluga Guðmundssyni 1688". Útg. Hannes Þorsteinsson, Safn til sögu Íslands III, Reykjavík: 701-728.

Biskupa sögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I-II. Útg Jón Þorkelsson og Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1903-1915.

Páll Vídalín. Recensus poetarum et scriptorum Islandorum hujus et superioris seculi. Jón Samsonarson bjó til prentunar. Reykjavík 1985.
ÍB 35 fol

Viðar Hreinsson

 


botn_haus

síðast uppfært 23.05.2007 <=========> vefhönnun: sigatlas
© strandagaldur - höfðagata 8-10 - 510 hólmavík - galdrasyning@holmavik.is - sími 451 3525