Héraðsbókasafn Strandasýslu

Bókaormur

Grunnskólanum á Hólmavík, Skólabraut 20
Bókavörður: Kristín Sigurrós Einarsdóttir
Sími: 451-3256
Netfang: bokasafn@holmavik.is

Opnunartími:
   10:00-13:30 á skólatíma og 19:30-20:30 á þriðjudagskvöldum.

 
Aðalsíða

Tilkynningar

Bóka- og ljóðakvöld

Safnkosturinn

Saga bókasafnsins

Saga Héraðsbókasafnsins

Handskrifuð sveitablöð

Lestrarfélag Hrófbergshrepps stofnað 1897

Lestrarfélög á Ströndum

Ef þið hafið ábendingar sendið þá bókaverðinum póst: bokasafn@holmavik.is 
 

Lestrarfélög á Ströndum 

Lestrarfélög voru ein af fyrstu félagasamtökunum sem almenningur stofnaði og tók þátt í hér á landi. Fyrsta lestrarfélagið fyrir almenning hér á landi, sem náði einhverjum þroska, var stofnað í Gufudalssveit í Austur-Barðastrandarsýslu árið 1843 - Lestrarfélag Gufdæla. Stuttu síðar var fyrsta lestrarfélagið fyrir almenning stofnað hér á Ströndum og á það sér býsna merkilega sögu.

Lestrarfélag Tröllatungu- og Fellssafnaða 

Félagið var stofnað formlega 3. janúar 1846, en yfirleitt er þó stofndagurinn og afmæli félagsins miðað við 13. desember árið áður. Þá sammæltust menn um að stofna félagið í erfidrykkju Einars Jónssonar á Kollafjarðarnesi. 

Félagið starfaði kröftuglega fram undir 1861 og af stofni þess spruttu til dæmis jarðabótafélag og bindindisfélag. Fyrst voru útlán bundin við þessar tvær sóknir en árið 1849 var lögum breytt þannig að utansveitarmenn gátu líka orðið félagar og fengið bækur. Árið eftir voru félagsmenn flestir eða um 50 og þar af voru tveir Dalamenn. Hluti safnsins var jafnan lánaður norður á Gjögur um vertíðina og má það kallast allmerkilegt. Eins var unnið að endurbyggingu Tröllatungukirkju á vegum félagsins á fyrstu starfsárunum. Lestrarfélög voru á þessum árum hálfgerðir húsbændaklúbbar og bókakaup og útlánum var stjórnað af þeim. Kona varð aldrei félagsmaður.

Upp úr 1861 dofnaði mjög yfir starfseminni og lognaðist félagið endanlega út af 1867 þegar Ásgeir Einarsson bókavörður á Kollafjarðarnesi flutti frá Ströndum. Félagið var síðan endurvakið 1886, en skipt í tvö félög árið 1890.

Lestrarfélag í Hrútafirði

Pétur Eggerz kaupmaður á Borðeyri stofnaði lestrarfélag í Hrútafirði um 1865 og starfaði það í fáein ár. Í bréfi sem hann skrifar Torfa í Ólafsdal 1868 segir hann að seigt og fast hafi gengið að koma félaginu á laggirnar, en af því flestir bændur í sveitinni séu nú gengnir í það er hann vongóður um að það lognist ekki út af í bráð. Ekki varð honum að ósk sinni um þetta og líklegt má telja að félagið hafi lagt upp laupana um 1870 um leið og alþýðuskóli fyrir unglinga sem Pétur stofnaði líka á Borðeyri.

Lestrarfélag Fellshrepps

Lestrarfélag Fellshrepps varð til 1890, þegar nýlega endurvöktu Lestrarfélagi Tröllatungu- og Fellssafnaða var skipt í tvær deildir. Fyrsti formaður félagsins var sr. Arnór Árnason á Felli. Árið 1891 átti félagið 117 bækur, en þær voru orðnar 875 árið 1914. 

Framan af var bókasafnið á ýmsum bæjum í sveitinni. 1936 fékk það svo inni í nýbyggðu samkomuhúsi ungmennafélagsins Gróðurs að Stóra-Fjarðarhorni. Þarna voru bækurnar til 1969 en eftir það voru þær öðru hverju á hálfgerðum hrakhólum. Bókasafn félagsins er nú aðgengilegt í Broddanesskóla.

Lestrarfélag Tungusveitar 

Lestrarfélag Tungusveitar varð til 1890, þegar Lestrarfélagi Tröllatungu- og Fellssafnaða var skipt í tvennt. Stofnendur félagsins litu þannig á að þetta félag sé Lestrarfélag Tröllatungu- og Fellssafnaða endurvakið og nálgast 160 ára afmælið því. Fyrsti formaður félagsins, sem hét fyrst Lestrarfélag Kirkjubólshrepps, var Ásgeir Sigurðsson á Heydalsá. Árið 1891 átti félagið 128 bækur og árið 1946 eru bækurnar 1444. Árið 1981 voru bækurnar nálægt 3000. 

Bókasafnið var fyrst á Kirkjubóli til 1903 en síðan lengi í Heydalsárskólanum. Frá 1958 hefur það síðan verið geymt í félagsheimilinu Sævangi.

Lestrarfélag Bjarnarfjarðar og Bala 

Lestrarfélag Bjarnarfjarðar og Bala var stofnað 12. mars 1896, sennilega á Kaldrananesi. Fyrsti formaður félagsins var Loftur Guðmundsson í Eyjum. Safnið var lengi til húsa í Reykjarvík hjá bókaverðinum Lýð Arngrímssyni. Síðar lenti það á hálfgerðum vergangi og mörg rit týndust og eyðilögðust. Seinna var það til húsa í skólastjóraíbúðinni í Klúkuskóla. Bókasafnið gekk til Bókasafns Kaldrananeshrepps árið 1969 og var þá samtals 1302 bækur.

Lestrarfélag Selstrandar

Talið er að félagið hafi verið stofnað 30. nóvember 1896 á Drangsnesi og var Ingimundur Guðmundsson á Hellu fyrsti formaður. Félagið gæti þó verið eldra. Önnur nöfn á sama félagi eru Lestrarfélag Kaldrananeshrepps og Lestrarfélag Selstrendinga. Félagið afhenti Bókasafni Kaldrananeshrepps eignir sínar 1970.

Lestrarfélag Hrófbergshrepps

Félagið var stofnað á Hrófbergi 18. desember 1897 og voru 25 manns stofnfélagar. Fyrsti formaður var Magnús Magnússon á Hrófbergi. Árgjald var ein króna fyrir karla, en 50 aurar fyrir konur og ófermda. 

Árið 1942 var Hrófbergshreppi skipt í tvennt og safninu einnig. Fór þá meginhluti af bókum félagsins til Lestrarfélags Hólmavíkurhrepps, en lítill hluti í Hrófbergshrepp og lenti þar í reiðuleysi. Árið 1956 voru þær bækur félagsins sem eftir voru látnar ganga til Héraðsbókasafns Strandasýslu við stofnun þess. Þar er fundargerðarbók félagsins frá stofnun til 1910 varðveitt.

Lestrarfélag Bæjarhrepps

Í bókinni Ströndum segir að Lestrarfélag Bæjarhrepps hafi verið stofnað 1905. Talið er líklegt að hvatamenn að stofnun safnsins hafi verið feðgarnir Guðmundur Bárðarson og Guðmundur G. Bárðarson sem fluttu skömmu áður að Bæ í Hrútafirði. Heimildir sem ég hef aðgang að segja hins vegar að þetta félag hafi verið stofnað 1890, en hugsanlega er þar um að ræða Sýslubókasafnið sem átti örfáar bækur og var á tveimur stöðum, á Hólmavík og í Hrútafirði. Þetta þarf að skoða betur við tækifæri.

Umsjónarmaður með safninu var lengi Bjarni Þorsteinsson kennari og voru bækurnar lengi á þremur stöðum, ein deild var í Bæ, ein að Borgum og ein að Fögrubrekku.

Um 1960 voru bækurnar fluttar á einn stað, að Borðeyri og fengu þar húsnæði í litlu herbergi í húsi sem skólinn átti. 1975 flutti barnaskólinn síðan í nýtt húsnæði og bókasafnið líka, fyrst í geymsluherbergi en nokkru síðar var byrjað að lána úr því að nýju.

Lestrarfélag Árneshrepps

Félagið var stofnað 24. maí 1913 og var Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði fyrsti formaður þess. Stofninn í bókasafninu var í upphafi bókasafn Sigurgeirs Ásgeirssonar fyrsta skólastjóra Heydalsárskólans sem seldi félaginu safn sitt. Safnið óx jafnt og þétt og átti félagið um 600 bækur árið 1936. Félagið var miklu meira en bókasafn, t.d. setti það upp leikrit um árabil fyrir norðan, jafnvel verk eins og Skugga-Svein. 

Í fyrstu voru bækur félagsins geymdar á Finnbogastöðum, en 1917 var þeim komið fyrir á prestsetrinu í Árnesi. 1936 fóru þær í Norska braggann í Árnesi og síðar læknisbústaðinn nokkru seinna. 1956 voru bækurnar fluttar í skólahúsið á Finnbogastöðum og árið 1982 var lestrarfélagið gert að hreppsbókasafni og nafninu breytt í Bókasafn Árneshrepps.

Lestrarfélag Óspakseyrarhrepps

Lestrarfélag Óspakseyrarhrepps var stofnað 9. janúar 1921 og var fyrsti formaður þess Sigurgeir Ásgeirsson á Óspakseyri. Fjölmennt var á stofnfundinn og voru dæmi um að 5 stofnfélagar væru frá sama bæ. Á stofnfundi áskotnuðust félaginu 150 bækur, flestar gefins.Í árslok 1922 voru bækurnar orðnar 258, en um 1970 var hætt að kaupa nýjar bækur og var svo til 1980 þegar bókakaup hófust aftur. Árið 1971 yfirtók Óspakseyrarhreppur rekstur safnsins en í því var þó áfram sérstök stjórn.

Bókasafnið var til húsa á Óspakseyri til 1944, en var þá flutt að Bræðrabrekku. Upp úr 1950 var safnið síðan flutt að Einfætingsgili og síðan að Árdal um 1960. Þegar hreppurinn tók við var safninu skipt á tvo bæi, Gröf og Þambárvelli. Nú er safnið aðgengilegt í Broddanesskóla.  

Fundargerðarbækur og gögn félagsins eru glötuð að undanskilinni aðfangabók. Þau brunnu þegar bærinn í Hvítuhlíð brann árið 1966.

Lestrarfélag Hólmavíkurhrepps

Lestrarfélag Hólmavíkurhrepps varð til árið 1942, sama ár og Hólmavíkurhreppur. Fékk það meginpart af bókum Lestrarfélagi Hrófbergshrepps en lítill hluti varð eftir í Hrófbergshreppi. Bækurnar höfðu áður verið geymdar í gamla barnaskólanum og svo var áfram. Bókakosturinn gekk til Héraðsbókasafnsins þegar það var stofnað 1956.

© 2003 - Jón Jónsson,
þjóðfræðingur á Kirkjubóli 

Vefsíðugerð: Sögusmiðjan