Héraðsbókasafn Strandasýslu

Bókaormur

Grunnskólanum á Hólmavík, Skólabraut 20
Bókavörður: Kristín Sigurrós Einarsdóttir
Sími: 451-3256
Netfang: bokasafn@holmavik.is

Opnunartími:
 10:00-13:30 á skólatíma og 19:30-20:30 á þriðjudagskvöldum.

 
Aðalsíða

Tilkynningar

Bóka- og ljóðakvöld

Safnkosturinn

Saga bókasafnsins

Lestrarfélög á Ströndum
Handskrifuð sveitablöð

Lestrarfélag Hrófbergshrepps stofnað 1897

Saga Héraðsbókasafnsins 

Ef þið hafið ábendingar, sendið þá bókaverðinum póst: bokasafn@holmavik.is 
 

Stofnun Héraðsbókasafns Strandasýslu

Héraðsbókasafn Strandasýslu var stofnað árið 1956 og samanstóð bókakostur þess í upphafi af bókum frá Lestrarfélagi Hólmavíkurhrepps og Sýslubókasafni Strandasýslu, auk þess sem fáeinar skræður komu frá Lestrarfélagi Hrófbergshrepps. Í fundargerð þann 17. júlí 1956 sem jafnframt var fyrsti fundur stjórnar kemur fram að gjald fyrir ársskírteini var ákveðið kr. 30.- fyrir Hólmavíkurhreppsbúa, en kr. 15.- fyrir aðra notendur. Ákveðið var að hafa tvo útlánatíma á viku yfir veturinn en einn að sumrinu. Næsta fundargerð í fundargerðabók Héraðsbókasafnsins er dagsett 15. september 1978 og eru síðan bókaðir fundir á um það bil 2 ára fresti til 1994 þegar bókunum fer að fjölga.

Bókasafnsnefnd eða stjórn bókasafnsins hefur frá stofnun verið samsett af tveimur mönnum tilnefndum af Strandasýslu og þremur mönnum tilnefndum af Hólmavíkurhreppi. Í fyrstu stjórn þess voru séra Andrés Ólafsson formaður, Guðmundur Þ. Sigurgeirsson, Óli E. Björnsson, Guðbrandur Benediktsson og Torfi Guðbrandsson. 

Húsnæði safnsins

Bókakostur Héraðsbókasafnsins var upphaflega varðveittur í Barnaskóla Hólmavíkur og hafði reyndar verið þar í herbergi í kjallaranum áður en safnið var stofnað formlega. Við stofnun Héraðsbókasafnsins var safnið síðan flutt upp á efri hæðina, í herbergi inn af kennarastofunni þar sem nú er skólastjóraherbergi. Síðar var nokkuð af bókum flutt aftur niður í kjallara og þá var safnið á tveim stöðum. Bókasafnið varð fljótlega mjög aðþrengt í skólanum og endaði með því að safninu var pakkað í kassa árið 1969 og sett í geymslu í Taflfélagshúsið um tíma. Árið 1970 var það síðan flutt í kjallarann að Borgabraut 13 þar sem húsnæði var leigt undir safnið og þar var það í allmörg ár. Á þessum tíma var safnið fyrst skráð eftir almennu flokkunarkerfi.

Á árunum eftir 1980 var byggt við skólann á Hólmavík og var þá byggt húsnæði fyrir Héraðsbókasafnið og skólabókasafn um leið. Átti þessi bygging að leysa úr húsnæðisvanda þess til frambúðar. Þar hefur bókasafnið verið frá 1984 ásamt Tónskóla Hólmavíkurhrepps og Kirkjubólshrepps flest árin og er orðið allþröngt um báða aðila. Bækur Héraðsbókasafnsins eru í geymslum á tveimur stöðum annars staðar í skólahúsinu, m.a. á lofti yfir smíðastofunni, þar sem þær eru mjög óaðgengilegar. Bókasafnið stækkað nokkuð við þegar Bókasafn Nauteyrarhrepps var sameinað því nokkru eftir sameiningu sveitarfélaganna sitt hvoru megin við Steingrímsfjarðarheiði árið 1994. Nýverið voru svo bækur frá Broddanesi (úr lestrarfélagi Óspakseyrar og Fellshreppa) fluttar í safnið og búið er að pakka bókum úr Sævangi (úr lestrarfélagi Tungusveitar) til flutnings í safnið.

Bókaverðir 

Bókaverðir Héraðsbókasafnsins og skólabókasafnsins frá upphafi hafa verið eftirtaldir:

  • Frá 2012 - Kristín Sigurrós Einarsdóttir, Hólmavík

  • 2001 - 2012 - Ester Sigfúsdóttir, Kirkjubóli

  • 1999-2001 - Ingibjörg Valdimarsdóttir, Hólmavík

  • 1996-1999 - Jónína Gunnarsdóttir, Hólmavík

  • 1995-1996 - Sunna Vermundsdóttir, Hólmavík

  • 1992-1995 - Hafdís Sturlaugsdóttir, Húsavík

  • 1982-1992 - Jón Ólafsson, Hólmavík

  • 1971-1982 - bókasafnsnefnd skipti með sér bókavörslu, útlánum og stjórnun

  • 1969-1970 - enginn, bókasafnið í kössum

  • 1968-1969 - Ingimunda Hansen, Hólmavík

  • 1962-1968 - Jón E. Alfreðsson, Hólmavík

  • 1957-1961 - Fanney Hjaltadóttir, Hólmavík

  • 1956 - Óli E. Björnsson, Hólmavík

© 2003 - Jón Jónsson,
þjóðfræðingur á Kirkjubóli 

Vefsíðugerð: Sögusmiðjan