Leikfélag Hólmavíkur

Búningahorn

Sminkhorn

Ljósahorn

Hvíslarahorn

 
Leikfélagið

Nýjustu fréttir

Leiksýningar

Ferðalög

Glens og grín

Leikarar o.fl.

Upphafssíðan
 

Gestabók
Skrá á póstlista


 

 
Handleggsbrotnaði við mikinn fögnuð áhorfenda ...

Þegar Leikfélagið sýndi Einn koss enn í Króksfjarðarnesi árið 1994 lögðu leikarar sérlega hart að sér við að vekja kátínu áhorfenda. Svo mikill var atgangurinn að í lokaatriðinu handleggsbrotnaði Sigurður Atlason en lék þó sýninguna til enda, að vísu óvenjulega grettur á svip. Sagt var frá þessum viðburði í blöðum og orðað þannig að Siggi hefði handleggsbrotnað við mikinn fögnuð áhorfenda.

Siggi handarbrotinn

Hurðarhúnn í aðalhlutverki ...

Þegar Landabruggið var sýnt í Króksfjarðarnesi skemmtu áhorfendur sér vel að vanda. Best skemmtu þeir sér þó yfir óvæntri uppákomu laust fyrir hlé. Þannig var að Lína og Ferdinand (Steina og Ómar) voru á sviðinu og áttu að strunsa út, eins og venja er í försum þar sem allt byggist upp á hröðum skiptingum. Steina þreif í hurðarhúninn en hurðin opnaðist bara hreint ekki. Húnninn var laus og snerist bara í hringi. Steina kippti aftur í og rykkti svo duglega í að leikmyndin lék öll á reiðiskjálfi. Áhorfendur i Króksfjarðarnesi eru einstaklega skemmtilegir og hlógu dátt að þessum vandræðagangi. Steina rykkti einu sinni enn og nú stóð hún með hurðarhúninn í hendinni. Þá trylltust áhorfendur úr hlátri.

 Baksviðs biðu aðrir leikarar eftir að Lína og Ferdinand kæmu stormandi út. Áhorfendur hlógu og hlógu. "Hvern djöfulinn eru þau að gera sem er svona svakalega fyndið," sagði Hans Hólm lögmaður (Jón Jónsson), orðljótur að vanda, við Ingjald landabruggara (Magnús Rafnsson) baksviðs. Áhorfendur veltust um. "Ég hef ekki hugmynd," sagði Ingjaldur og kíkti inn um rifu á leiktjöldunum.

Landabruggarinn var fljótur að átta sig þegar hann sá húninn í höndum Steinu og reyndi að opna hurðina utan frá. En þar var allt á sama veg, hurðin ætlaði ekki að opnast. Ingjaldur tók því tvö skref afturábak og fleygði sér á hurðina (fleygði sér á dyr), heimili hæstaréttarlögmannsins lék á reiðiskjálfi, hurðin hrökk upp og bruggarinn valt inn á sviðið. Áhorfendur veinuðu af fögnuði, enda var þeim fullljóst að þetta væri ekki partur af leikritinu. Landabruggarinn hafði nefnilega rétt áður verið færður til yfirheyrslu og átti að dúsa í steininum á þessari stundu. "Afsakið, afsakið, eins og þeir siviliseruðu segja," sagði Ingjaldur, ráfaði út aftur og hinir á eftir. Það heyrði enginn í honum. Áhorfendur hættu ekki að hlægja fyrr en hléið var að verða búið.

Steina og Ómar rétt áður en vandræðin hófust

Það verða bara engin jól  ...

Í Jóladagatalinu sem sett var upp árið 1989 átti Ásdís Jónsdóttir sem lék Grýlu alveg óskaplega erfitt með að muna textann sinn. Á annarri sýningunni á Hólmavík kom að þeim punkti að jóladagatalið var týnt. Þá áttu ljósin að slokkna í smástund og sorgleg grafarþögn að ríkja í nokkurn tíma. Síðan átti einn jólasveinninn að fá hugmynd um hvernig leysa mætti málið og ljósin að kvikna. En í þetta sinn höfðu ljósin varla slokknað þegar Grýla hóf upp raust sína og þrumaði yfir salinn: "Það verða bara engin jól!"

Með þessu stytti hún leikritið um nokkrar blaðsíður, þannig að Kertasníkir, leikinn af Jóni Jónssyni, tók sig til og barði duglega á tánni á henni. Grýla uppgötvaði við þetta að eitthvað var bogið við staðsetningu ræðunnar í leikritinu og því byrjaði hún aftur og nú á stað sem hún var handviss um að væri réttur. 

En það var eins og áður. Nýja klausan var ekkert réttari og kaflann sem hún byrjaði á í þetta skiptið var fyrir löngu búið að leika. Hvíslarinn sem að þessu sinni var Salbjörg Engilbertsdóttir upplifði eina sína skelfilegustu stund í leikhúsinu, enda átti hún auk þess að hvísla að deyfa ljósin og setja inn nýja lýsingu áður en kveikt var aftur og spila lag á sílafón í myrkrinu.

Leikritið hoppaði aftur um nærri 15 mínútur en með harmkvælum var því kippt í liðinn af Jóni Kertasníki sem var einn af höfundum verksins og kunni það því afturábak og áfram. Hann gat stoppað móður sína af og tekið af henni orðið áður en verr fór og sýningin hélt sínu striki á réttum stað eftir nokkrar afar undarlegar og samhengislausar setningar og dálitlar samræður þar sem Kertasníkir stóð upp í hárinu á Grýlu.

Áhorfendur tóku örugglega ekki eftir neinu undarlegu, fyrir utan það hvað leikritið var skelfilega ruglingslegt þessi andartök sem virtust heil eilífð á sviðinu.

Ef einhverjir kunna skemmtilegar sögur af uppákomum á sviðinu, endilega sendið okkur póst.

  

Spakmæli síðunnar: „Ég er farinn að gefa hænunum.“

 
Vefur
: SÖGUSMIÐJAN
© 2002