Leikfélag Hólmavíkur

Búningahorn

Sminkhorn

Ljósahorn

Hvíslarahorn

 
Leikfélagið

Nýjustu fréttir

Leiksýningar

Ferðalög

Glens og grín

Leikarar o.fl.

Upphafssíðan
 

Gestabók
Skrá á póstlista


 

     
Leikfélagslúðurinn 2003-2004

Fréttir af leikárinu 2006-7 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2005-6 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2004-5 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2003-4 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2002-3 með því að smella hérna.

 

Sýningum á Frænkunni lokið

Nú er lokið sýningum á leikritinu Frænku Charley´s en síðasta sýning fór fram síðasta laugardag í Ketilási í Fljótum fyrir troðfullu húsi, yfir 100 manns komu á sýninguna þar. Fremur lítið hefur verið um uppfærslur hér síðustu vikur, en nú stendur það allt til bóta. Framundan eru uppsetningar á myndasíðum frá leikritinu og ferðafrásögnum og fleiru skemmtilegu. Allt gerist það þegar ritarinn, leikstjórinn og stórleikarinn Arnar S. Jónsson kemur úr sumarfríi sem hann fer af stað í síðar í dag.

Skrifaður var ritdómur um leikritið í Morgunblaðið nýlega af leiklistarbrjálæðingnum Togga sem mætti á sýninguna í Mosfellssveit. Var hann allt í senn fremur gagnrýninn eins og gagnrýni á að vera, gagnlegur og tiltölulega jákvæður í heildina tekið. 

 [Innsett 17. júní 2004 - JJ]

  

Önnur sýning á Frænku Charley´s

Það hefur lengi verið hætta á og jafnvel loðað við sýningu nr. 2, á hvaða leikriti sem er, að hún verði sú lélegasta af þeim öllum. Menn eru e.t.v. orðnir kærulausari og komnir yfir mesta stressið, spennufallið tekur völdin og allt mistekst. En ekki í þetta skiptið.

Sýningin fór fram föstudagskvöldið 23. apríl. Aðsókn var örlítið lakari en á frumsýningunni, 65 manns mættu, en leikhópurinn lét það ekkert á sig fá enda eru sextíu og fimm manns hellingur af fólki. Það kom einmitt á daginn þegar salurinn engdist um af hlátri hvað eftir annað og í verstu rokunum veiktist gólfið í Bragganum enn meira.

Alda hvíslari þurfti að bregða sér af bæ og þar af leiðandi sinnti Ester hvíslarahlutverkinu að mestu leyti ásamt Svanhildi. Þær þurftu aldrei að hvísla því sýningin var hnökralaus með öllu. 

Eftir sýningu var síðan skundað á gleðifund heim til kokksins úr Sex í Sveit og manns hennar. Þar var spjallað, hlegið, skrafað og  spilað mikið á gítar en ekki mikið sungið því enginn í leikhópnum virðist kunna texta við neitt. Og svo var að sjálfsögðu allnokkuð drukkið en þó ekki mikið. Geiminu lauk nákvæmlega kl. 2:45.

 [Innsett 30. apr. 2004 - ASJ]

 

Frumsýning í Bragganum

Eftir stífar æfingar síðustu dagana og mikið kapphlaup við að koma sviðsmyndinni góðu í gagnið var haldin generalprufa fyrir ca. 15 manns miðvikudagskvöldið 21. apríl. Vanir leikhúsmenn vilja meina að generalinn eigi að mistakast herfilega, annars verði frumsýningin ekki nógu góð. 

Sú áætlun mistókst herfilega og generalprufan tókst vel - allt í einu small allt saman, allir kunnu textann sinn og stöðurnar. Það eina sem mistókst var tímasetningin, en við ætluðum okkur heldur of lítinn tíma í förðun og þess vegna hófst prufan aðeins seinna en áætlað var.

Gott gengi á generalprufunni virtist engin áhrif hafa á frumsýninguna sem var á sumardaginn fyrsta, 22. apr. Frumsýningin tókst ferlega vel. Aðsóknin var hreint ágæt, 74 áhorfendur fylltu Braggann og hlógu sem óðir væru. Engin mistök voru gerð á sýningunni sem hlaut sérlega góðar móttökur áhorfenda sem voru byrjaðir að hlægja áður en leikritið byrjaði. Eftir sýningu voru leikararnir síðan klappaðir upp og fólk reis úr sætum. Svo fékk leikstjórinn voða fallegan blómvönd. Takk fyrir það.

 [Innsett 30. apr. 2004 - ASJ]

 

Sýningaplan

Nú eru æfingar á Frænku Charley´s á lokastigi, leikstjórinn að fara á taugum og allt að smella saman á morgun eða hinn því síðar má það bara ekki gerast.

Mitt í öllum látunum er búið að berja saman sýningaplan sem er svohljóðandi í drottins þó nokkuð heilaga nafni:

  • 1. sýning -> Hólmavík, 22. apríl (sumardaginn fyrsta), kl. 20:00.

  • 2. sýning -> Hólmavík 23. apríl (föstudag), kl. 20:00.

  • 3. sýning -> Drangsnesi 26. apríl (mánudag), kl. 20:00.

  • 4. sýning -> Hólmavík 28. apríl (miðvikudag), kl. 20:00.

  • 5. sýning -> Árnesi 1. maí (laugardag), kl. 20:00.

  • 6. sýning -> Hólmavík 28. maí (föstudagur), kl. 21:00.

  • 7. sýning -> Króksfjarðarnesi  4. júní (föstudag), kl. 20:00.

  • 8. sýning -> Reykjavíkursvæðinu 5. júní (laugardag), kl. 20:00.

  • 9. sýning -> Ketilási 12. júní (laugardag), kl. 20:00.

 [Innsett 15. apr. 2004 - JJ]

Fullt að gerast

Það er að sjálfsögðu verið að æfa leikritið á hundrað, en það er líka margt annað sem þarf að gera fyrir uppsetninguna. 

Það er verið að leita að leikmunum og versla þá, það er búið að panta 20 metra af málarastriga til að nota í öðrum þætti, það er búið að panta 25 metra af óbleiktu lérefti til að mála á skóginn í garðinum fyrir utan íbúð Jacks og það er verið að leita að búningum og eitthvað af þeim kemur á morgun. 

Þá fékk leikstjórinn æðiskast og setti upp sviðsmyndina aleinn á sunnudagskvöldið, það á eftir að mála hana og það verður að velja litinn í dag. Það er búið að bólstra og hækka bakið á sófanum sem er notaður í þriðja þætti, það er búið að ná í ljóskastarana upp í félagsheimili og ljósaborðið líka, það á eftir að festa ljósin upp og stilla. Og svo á auðvitað eftir að klára að æfa leikritið.

Og svo framvegis... 

[Innsett 6. apr. 2004 - ASJ]

 

Leikarakreppa

Ekki beint kreppa en svona smá krísa kannski. Það reddast. Bjarki "The Red" Þórðarson hefur ákveðið að draga sig í hlé frá æfingaiðkun og segja skilið við hlutverk Sir Francis Chesney. 

Leikfélagið þakkar Bjarka fyrir þann dýrmæta tíma sem hann eyddi í æfingarnar hingað til og vonast til að hann verði áfram ferskur liðsmaður Leikfélagsins og innan handar þegar eitthvað verður að gerast.

[Innsett 1. apr. 2004 - ASJ]

 

Allt á fullu við æfingar

Æfingar á Frænku Charley´s ganga bara þó nokkuð vel. Fólk er óðum að læra rulluna sína, fyrsti þátturinn er í strangri naflaskoðun og áhlaupið á þriðja þátt er rétt að hefjast. 

Sabba er að reyna að redda búningum hér og þar um landið - það gengur misvel, því miður. Það er samt til nóg af velviljuðum leikfélögum um allt land og þess vegna erum við enn vongóð um að þurfa ekki að leggjast í saumaskap eða kaupa rándýra búninga.

Það er búið að taka alla flekana niður í Bragga og sviðshönnun er hafin fyrir löngu síðan en enn er ekki útséð með hvernig sviðið verður. Þá er propsleit að hefjast og ljóskastarar verða settir upp fljótlega.

Það er sem sagt allt að gerast. Gaman gaman!

[Innsett 30. mars 2004 - ASJ]

 

Aðsókn að árshátíðinni aldrei verið meiri

Nærri 250 manns voru mættir á árshátíð skólans fimmtudaginn 19. mars og urðu þar vitni að stórvel heppnaðri sýningu á leikritinu Þrymskviðu hinni nýrri. Nánar er fjallað um leikritið á þessari síðu - myndir og umfjöllun

[Innsett 21. mars 2004 - JJ]

 

Þrymskviða hin nýrri á árshátíðinni

Í kvöld verður haldin í Félagsheimilinu árshátíð Grunnskólans á Hólmavík. Það er alltaf mikið lagt í að gera árshátíðina sem veglegasta og nú, eins og oft áður, hafa Grunnskólinn og Leikfélagið starfað saman að því að gera árshátíðina sem glæsilegasta. Allir bekkir skólans munu sýna skemmtileg og fjölbreytt atriði sem hafa verið æfð mikið undanfarnar vikur. 

Tónlist spilar stóran þátt í skemmtiatriðunum, sem ná hámarki með leikverki eftir leikfélagsmæðgurnar Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur og Hörpu Hlín Haraldsdóttur, Þrymskviðu hinni nýrri. Verkið fjallar á afar nútímalegan hátt um átök, ástir og örlög þursa og ása.

Fjölmargir leikfélagar koma að árshátíðinni á einn eða annan hátt. Þar ber helst að nefna Kristínu S. Einarsdóttur sem leikstýrir Þrymskviðu. Þá sér leikfélagið einnig um lýsingu og förðun, fjölmargir leikfélagar sem starfa í skólanum stjórna skemmtiatriðum hjá sínum bekkjum og einnig taka tveir aldnir leikarar þátt í Þrymskviðu

Árshátíðin hefst kl. 20.00 og eru allir hvattir til að mæta, ungir sem aldnir.

[Innsett 18. mars 2004 - ASJ]

 

Æfingar á frænkunni hefjast fyrir alvöru

Nú eru æfingar á Frænku Charley´s hafnar af fullum þunga og krafti. Allur hópurinn mætti í gær og mætir síðan aftur í kvöld til að lesa allt verkið, en síðan verður tekið til við á næstu æfingum að lesa einstaka kafla verksins.

Enn vantar karlmann í hlutverk Sir Francis Chesney sem er fimmtíu og eins árs fyrrverandi herforingi sem lítur út fyrir að vera fertugur. Heyrst hefur af því að einhverjir séu heitir fyrir því að taka hlutverkið að sér og því er um að gera fyrir þá sem eru áhugasamir að láta vita af sér sem fyrst til að hreppa þetta frábæra hlutverk.

[Innsett 9. mars 2004 - ASJ]
 

Leikfélagið úr leik

Liðið okkar góðaLið Leikfélagsins féll út úr Spurningakeppni Sauðfjár-
setursins
síðasta sunnudags-
kvöld með sæmd og sóma.

 Hinir snjöllu leikfélagar öttu þá kappi við lið Hólmadrangs sem rétt marði sigur 23-21. Leikfélagar mega vel við una, með smáheppni hefði liðið náð í undanúrslit. Húrra fyrir Matta, Ásdísi og Stínu. Þau lengi lifi. Húrra húrra húrra!

[Innsett 9. mars 2004 - ASJ]

 

Samlestur í gær

Stærstur hluti leikhópsins hittist í Kvenfélagshúsinu í gær og las leikritið allt til enda. Það var mikið gott að gera, en leikstjórafíflið er búið að ákveða að endurskrifa verkið og klára það að mestu leyti um helgina. Einnig var ákveðið á fundinum að stefna að frumsýningu viku eftir páska því það er kannski heldur mikil bjartsýni að ætla sér að æfa verkið upp á tæplega fimm vikum.

Það var líka skipað í hlutverk í gær eins og sjá má hér. Að mestu leyti. Það vantar ennþá einn karlleikara, helst af eldri gerðinni. Nema ef einhver hættir við - þá vantar fleiri leikara, annað hvort konu eða karl. Æji. Æji. Vonandi gerist það nú ekki. Bjartsýnin borgar sig.

[Innsett 4. mars 2004 - ASJ]

 

Spurningakeppnin

Lið Leikfélagsins keppir við lið Hólmadrangs í Spurningakeppni Sauðfjársetursins núna á sunnudaginn 7. mars, og hefst keppnin kl. 20:00 afar stundvíslega. Hún fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík. Það eru þau Matthías Lýðsson, Ásdís Jónsdóttir og Kristín S. Einarsdóttir sem eru fulltrúar Leikfélagsins að þessu sinni. 

Allir að mæta og hvetja Leikfélagið (og önnur lið eftir vild) til dáða!

[Innsett 4. mars 2004 - ASJ]

 

Allt að byrja

Fyrsti samlestur á Frænkunni fór fram í gærkvöldi og búið er að setja upp upphitunarsíðu um leikritið, hér undir þessum tengli. Það gekk ágætilega, en óneitanlega setti skortur á karlmönnum svip sinn á samlesturinn. Almenn ánægja var með verkið (held ég) og menn eru bara nokkuð bjartsýnir á að það takist vel og rækilega að manna það.

Það kemur annars í ljós. Karlmenn, karlmenn, hvar eruð þið?

[Innsett 23. feb. 2004 - ASJ]

 

Leikarar óskast - samlestur annað kvöld

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í uppfærslunni á Frænku Charley´s á einn eða annan hátt eru hvattir til að mæta í húsnæði Sauðfjársetursins að Skeiði 3, þriðjudagskvöldið 24. febrúar kl. 20:00. Öllum er velkomið að kíkja við, óháð því hvað þeir vilja gera - leika, lýsa, farða, búa til leikskrá, vera aðstoðarleikstjórar o.s.frv. 

Leikritið verður lesið í heild sinni ef vel gengur og rabbað um komandi uppfærslu og drukkið kaffi eftir þörfum hvers og eins. 

[Innsett 23. feb. 2004 - ASJ]

 

Gáfað Leikfélag?

Lið Leikfélagsins sem tók þátt í Spurningakeppni Strandamanna nú í gær komst áfram með glæstum sigri á Heilbrigðisstofnun Hólmavíkur, 22-16. Í ljósi þessa óvænta árangurs liggur nú ljóst fyrir að Ásdís, Stína og Matthías eiga það á hættu að verða útnefnd gáfnameistarar Leikfélagsins, en þeim titli fylgir sú gleði að leita að og finna gott leikrit til að sýna á hverju einasta ári.

Við hvetjum hér með alla leikfélaga til að koma og hvetja okkar fólk í 8 liða úrslitum keppninnar sem fara fram sunnudaginn 7. mars í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 20:00. Þar etja þau kappi við lið Hólmadrangs sem komst í úrslit í fyrra. Áfram LH!

[Innsett 23. feb. 2004 - ASJ]

 

Jibbí!

 Það er loksins búið að ákveða hvaða leikrit verður sett upp í vor. Húrra og vei og bravó. Það verður leikritið Frænka Charley´s eftir Brandon nokkurn Thomas. Leikritið var sýnt uppi í Kollafirði hjá Leikfélaginu Eldingu fyrir eins og tuttugu árum síðan og þá lék formaður LH, Einar Indriðason, eitt af aðalhlutverkunum. Leikritið er ofsa skemmtilegt og fjörugt.

Nú bíða persónurnar 10 í leikritinu eftir því að fá leikara til að leika sig. Hér með er óskað eftir nokkrum slíkum sem eru til í stífar og skemmtilegar æfingar.

[Innsett 22. feb. 2004 - ASJ]

 

Forljótt he....i

 

Leikstjórinn er fundinn

Þetta fyrirbæri hér er leikstjórinn okkar nýji. Hann er mikið ljótur en það verður að hafa það.

[Innsett 3. feb. 2004 - ASJ]

 

 

Stjórnarfundur í gær

Í gær fór fram fjórði stjórnarfundur leikfélagsstjórnarinnar á jafnmörgum mánuðum. Umræðuefnið var leikstjóramálið og eftir-að-finna-leikritið-málið. Viðstaddir voru Sabba, börn hennar og maður, Einar, Arnar og stórleikarinn Ómar Pálsson kíkti við í byrjun fundarins. 

Fyrsta mál á dagskrá var leikstjóramálið mikla sem hefur valdið mörgum hugarangri. Eftir stuttar en snarpar umræður var ákveðið að ráða Arnar S. Jónsson sem leikstjóra fyrir næstu uppsetningu. Hann vék ekki af fundi meðan sú ákvörðun var tekin en lýsti sig ánægðan með kaup og kjör sem innihalda m.a. fría utanlandsferð til Evrópulands að eigin vali og gefins Pfaff-stereogræjur og heimabíó frá Raftækjabúðinni ( verð. kr. 178.000.-).

Því sem næst tóku við langar og leiðinlegar umræður um leikritavalið. Það þarf að fara að ákveða það sem allra fyrst hvað verður leikið. Þó nokkuð er búið að lesa af leikritum en erfitt er að fá botn í málið. Þess vegna var ákveðið að panta slatta af handritum til viðbótar auk þess að fá send handrit í stóru upplagi sem henta þá til samlesturs.

Fleira var nú ekki rætt enda ekki ástæða til að stressa sig.

[Innsett 3. feb. 2004 - ASJ]

 

Spurningakeppnisdrátturinn

Núna rétt áðan var dregið í 1. umferð Spurningakeppni Strandamanna. Mótherjar Leikfélagsins þar verður lið Heilbrigðisstofnunarinnar á Hólmavík. Það er öruggt að hér er jöfn og spennandi viðureign í aðsigi - og ef fulltrúar Leikfélagsins detta út er alla vega nóg af vönu fólki í hinu liðinu til að veita því áfallahjálp.

[Innsett 2. feb. 2004 - ASJ]

 

Stjórnarfundur í kvöld

Það verður haldinn stjórnarfundur heima hjá Salbjörgu í kvöld. Þar á að leysa leikstjóravandamálið, eftir-að-finna-leikritið-vandamálið og öll önnur vandamál heimsins sem hafa ekki verið leyst enn.

[Innsett 2. feb. 2004 - ASJ]

 

Þorrablót Hólmvíkinga

Eins og venjulega voru félagar úr Leikfélagi Hólmavíkur í eldlínunni við uppsetningu skemmtiatriða á þorrablóti Hólmvíkinga 2004 sem var haldið nú um helgina. Vaninn á Hólmavík er sá að konurnar sjá um þorrablótið og karlar um góugleði og á því varð engin breyting nú í ár. Leikdívurnar Svanhildur Jónsdóttir og Kristín S. Einarsdóttir voru meðal þeirra sem sáu um samningu skemmtiatriða og þær léku einnig allmörg hlutverk í þeim.

Þær voru þó ekki einar um hituna því fjölmargar bráðefnilegar og jafnvel stórgóðar leikkonur sáust á sviði þetta kvöld. Það er von leikfélagsins að þorrasprell kvennanna leiði þær langt út á hina grýttu braut leiklistarinnar.

Þess má síðan geta að Einar Indriðason formaður aðstoðaði konurnar við hitt og þetta (og fékk flösku með áfengum drykk að launum) og Jón Ragnar Gunnarsson prílaði að vanda upp í stiga og festi upp ljós. Hann sá einnig hljómsveitinni sem spilaði eftir atriðin fyrir rafmagni (hann fékk samt ekki flösku með áfengum drykk fyrir - enda ekki með aldur til).

Einnig átti Hildur Guðjónsdóttir sterka innkomu á þorrablótinu, en hún hastaði ansi kröftuglega á öll frammíköll sem höfð voru í frammi þegar skemmtiatriðin voru í gangi. 

Engum varð meint af skemmtuninni svo vitað sé og allir fóru glaðir heim og sumir fyrr en aðrir - en það er önnur saga sem verður aldrei sögð.

[Innsett 2. feb. 2004 - ASJ]

 

Leikfélagið í gáfnakeppni

Nei, þetta er ekki brandari. Leikfélagið ætlar að senda lið í Spurninga-
keppni Strandamanna sem hefst 8. febrúar nk. Keppnin er á vegum hins frábæra Sauðfjárseturs. Leikfélagið tók þátt í keppninni í fyrra og reið vægast sagt mjög horuðum hesti frá þeirri þáttöku. Það verður ekki rætt nánar hér enda eru menn enn í sárum.

Leikfélagsliðið er skipað helstu gáfnaljósum Strandasýslu - þeim Ásdísi Jónsdóttur, Matthíasi Lýðssyni og Kristínu S. Einarsdóttur. Þess má að lokum geta að dómari, spyrill og spurningasemjari er leikfélaginn, snillingurinn og ofurmennið Arnar S. Jónsson.

[Innsett 29. jan. 2004 - ASJ]

 

Gúrkutíð?

Það er ekki mikið að gerast þessa dagana - þannig séð. Stjórnarmenn hafa legið yfir nokkrum leikritum sem hafa ekki vakið gríðarlega lukku. Það er helst að verkið "Á svið!", sem skánaði heldur þegar á það leið, komi til greina. Vonandi hægt að gera það gott. Ekki er enn ljóst hvernig stóra leikstjóramálið fer en það er í vinnslu.

Þá hafa heyrst af því fréttir að leiklistardeild elstu bekkja Grunnskólans, sem Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir hefur haft umsjón með í allmörg ár, ætli að ráðast í uppsetningu á metnaðarfullu verkefni, Þrymskviðu í leikgerð Hrafnhildar sjálfrar. Leikfélagið ætlar að sjálfsögðu að vera með í uppsetningunni og hjálpa leikurunum ungu við að gera garðinn frægan.

[Innsett 29. jan. 2004 - ASJ] 

 

Annar stjórnarfundur!

Það hefur sjaldan gerst í langri sögu leikfélagsins að stjórnarfundir séu haldnir með jafn stuttu millibili og nú er gert.

En það sem hefur sjaldan gerst getur alltaf gerst. Og það gerðist einmitt í gær þegar stjórnin hittist uppi í íþróttahúsfélagsheimilisbyggingu Hólmavíkur. Rósa Guðný var búin að gera tilboð í leikstjórnina sem stjórnarmönnum fannst því miður í hærri kantinum. Einar tók að sér að spjalla við hana og afþakka starfskrafta hennar að þessu sinni. Það er aldrei að vita nema hún komi síðar. Harpa H. Haraldsdóttir ætlar að skima eftir leikstjórum sem hún þekkir fyrir okkur.

Fundurinn var ekki langur. Honum lauk eftir að Arnar ritari hafði tekið að sér það geysilega erfiða verk að senda tölvupóst á leikstjóra á leikstjóralista Bandalagsins með fögrum orðum. Leikritið Á svið! eftir Rick Abbott hafði borist Salbjörgu og hún afhenti Arnari það til yfirlestrar. Hann las síðan fyrstu 30 síðurnar í gær og var ekkert yfir sig hrifinn.

[Innsett 16. jan. 2004 - ASJ] 

 

Hann á afmæli í dag....

Leikfélagsvefurinn er 1 árs í dag. Hann heldur áfram að vaxa og dafna ef að líkum lætur. Til gamans má geta að þessi frétt er frétt nr. 83 á þessu einu ári, en það þýðir að hér hefur verið sett inn 1,6 frétt á viku. Er virkilega svona mikið að gerast hjá okkur?

Annars voru umsjónarmenn og smiðir vefsins, bræðurnar Arnar og Jón Jónssynir, ekkert að missa sig úr fagnaðarlátum yfir afmælinu. Hreint ekki. 

Haldið var upp á afmælið vefsins með finnskum hætti. Fyrst þögðu menn saman í tvo tíma, en síðan var skálað í vodka og haldið áfram að þegja. Ekki neitt helvítis kjaftæði og ræðuhöld.

[Innsett 14 jan. 2004 - ASJ]

 

Stjórnarfundur í gær

Ansi hreint ofsalega merkur stjórnarfundur var haldinn í gær heima hjá Salbjörgu gjaldkera. Ætlunin var að tala um leikrit og leikstjóraleysi félagsins og reyna að finna lausn á þeim málum. Lengi vel leit þó út fyrir að ekkert yrði talað, því stjórnarmenn lágu fyrir framan sjónvarpið í letikasti og horfðu á ameríska lágmenningu og röbbuðu um fall Frasier-þáttanna.

Eftir smá röfl um það merka málefni dröttuðust Addi og Einar inn í eldhús þar sem Sabba hafði komið sér makindalega fyrir framan tölvuna. Stjórnin skoðaði leikritalista í hátt í klukkutíma og komst að þeirri niðurstöðu að athuga betur leikritin Á svið! (sem er ekki Allir á svið sem er verið að sýna fyrir sunnan núna - það átti undirritaður mjög erfitt með að skilja), Billy lygari og eitthvað eitt enn sem ég man ekki hvað er.

Eftir þessa merku ákvörðun var ákveðið að hringja í Rósu Guðnýju Þórsdóttur leikstjóra sem Skúli var svo vingjarnlegur að benda okkur á. Upphófst þá mikil barátta um það hver ætti að tala við hana, Einar og Addi grétu af hræðslu en Sabba varð reið. Deilan endaði með því að formaðurinn Einar hringdi eftir að aðrir stjórnarmeðlimir komust að því að hann væri sá eini sem væri eldri en viðkomandi leikstjóri. Addi ældi af spenningi meðan Einar var í símanum, en Sabba gaf nýjasta leikfélagsmeðlimnum að drekka.

Rósa Guðný gaf út þá merku yfirlýsingu að hún vildi hugsa sig um, eftir að hafa heyrt hugmyndir okkar um leikritaval og fyrirhugaðan sýningartíma. Við höldum því fast í vonina og biðjum til leiklistargyðjunnar.

Eftir þetta merka atvik keyrðu þeir stjórnarmeðlimir sem ekki voru heima hjá sér heim til sín í fljúgandi hálku, sem hefur herjað á gjörvallar Strandir síðustu daga. Kátir í bragði og vongóðir - þar til annað kemur í ljós.

[Innsett 8. jan. 2004 - ASJ]

 

Fjölmennt á opnum samlestri

Opni samlesturinn þar sem leikritið Leynimelur 13 var lesið við mikinn fögnuð og kæti viðstaddra var býsna fjölsóttur. Hvorki fleiri né færri en 13 leikfélagar hittust þarna og skemmtu sér hið besta að lesturinn. 

Í framhaldinu eru formaður og ritari félagsins að lesa fleiri leikrit með uppsetningu í vor í huga. Farsar og ærslaleikir eru ofarlega í huga manna - meðal efnis sem til skoðunar er eru leikritin Klerkar í klípu, Hallæristenórinn, Billy lygari, Saklausi svallarinn, Frænka Charleys og Fló á skinni. Reiknað er með að lending náist og niðurstaða fáist í þessum nýbyrjaða mánuði á þessu nýbyrjaða ári.

[Innsett 2. jan. 2004 - JJ]

 

Gleðilegt nýtt ár ...

... og takk fyrir það gamla. Svo mælir Leikfélagsslúðrið.

[Innsett kl. 00:01 þann 1. jan. 2004 - JJ]

*   *   *   *   *   *   *   *   *    *    *    *    *    *    *    *    *    *    *    *

  

Opinn samlestur í kvöld  

Í kvöld, þriðjudagskvöldið 30. desember kl. 20:00, verður haldinn opinn samlestur í anddyri félagsheimilisins á Hólmavík. Lesið verður leikrit sem kemur til greina sem uppsetning næsta árs.

Allir sem hafa áhuga eru velkomnir á samlesturinn, hvort sem er til að taka þátt í að lesa leikritið eða til að hlusta á hina og drekka leikfélagskaffi.

[Innsett 30. des. 2003 - ASJ]

 

Gleðileg jól frá Leikfélaginu

Jæja nú. Þá eru jólin komin enn og aftur.

Leikfélag Hólmavíkur óskar öllum landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs sem vonandi verður gjöfult og gott í alla staði fyrir ykkur öll. Sýningargestir ársins sem nú er að líða fá sérstakar kveðjur sem og dyggir lesendur leikfélagsvefjarins.

Hana. Þá er það komið. Þá er loksins hægt að fara að éta.

[Innsett kl. 18:03 þann 24. des.2003 - ASJ]

 

Opinn samlestur um jólin?

Á aldeilis sérlega óformlegum fundi tveggja stjórnarmanna og hjónakornanna á Kirkjubóli núna rétt áðan var ákveðið að stefna að því að hafa opinn samlestur á leikriti um jólin. Stefnan var tekin á að halda samlesturinn kl. 20:00 sunnudagskvöldið 28. desember.

Ætlunin er að þeir sem mæti á svæðið geti tekið þátt í að lesa leikritið, en fólki er að sjálfsögðu einnig velkomið að hlusta á hina lesa og hafa gaman af. Líklegt er að kaffitár verði í boði og kannski eitthvað meðlæti. Það er ekki búið að ákveða nákvæma staðsetningu, en óneitanlega kemur félagsheimilið upp í hugann.

Atburðurinn verður auglýstur betur þegar nær dregur.

[Innsett 18. des. 2003 - ASJ]

 

Skemmtilegar skuðhendur

Nýlega var bætt við nokkrum skuðhendum í vísnahornið, sömdum af hirðskáldinu Vigni Pálssyni. Vefstjórarnir hvetja þá sem þetta lesa til að skoða þær, og einnig væri gaman að sjá fleiri spreyta sig á skuðhendugerð. 

Þess má reyndar geta að Jón Bragi Sigurðsson frá Felli í Kollafirði hefur farið mikinn við vísnagerð í gestabók Leikfélagsins. Hann er hér með hvattur til að halda því áfram, enda á góðri leið með að ná fullu valdi á skuðhenduforminu....

[Innsett 18. des. 2003 - ASJ]

 

Þátttaka í bókakvöldi

Leikfélagið tók þátt í þjóðtrúardegi á bókasafninu þann 13. desember. Þá kom rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir norður á Strandir til að lesa úr bók sinni Strandanornir og Jón Jónsson leikfélagi og jólasveinafræðingur notaði tækifærið til að vara börnin við jólasveinunum og því hyski öllu saman. Félagar úr Leikfélaginu lásu ennfremur ögn upp við þetta tækfæri og gæddu sér síðan á gómsætum piparkökum og drukku mikið kaffi með. 

[Innsett 14. des. 2003 - JJ]

 

Vagg og velta

Kynning Leikfélagsins á starfsemi sinni í skólanum tókst einstaklega vel. Hún var haldin í fyrradag og rúmlega 10 unglingar voru viðstaddir og hlýddu í andakt á fagrar raddir fyrirlesaranna, sem voru Sabba, Jón, Stína og Addi og Einar sem gat ekki mætt vegna veikinda. Þarna voru sagðar ýmsar ljótar sögur af félögum í LH (aðallega Einari) og ferli uppsetningar á leikriti útskýrt.

Stórleikarinn Jón Jónsson varð heldur seinn á fyrirlesturinn vegna bílveltu sem hann lenti í á leiðinni til Hólmavíkur. Hann slasaðist pínkulítið á höfði í veltunni og skarst dulítið á annarri hendinni en hann lét sig engu að síður hafa það að lesa yfir lýðnum áður en hann aulaðist til læknis. Þar sannast hið fornkveðna að hið eina sem er afsökun fyrir því að mæta ekki á sýningu eða æfingu er eigin dauðdagi (nema ef maður heitir Einar og er formaður) - og jafnvel þá þarf að láta vita með viku fyrirvara svo hægt sé að ráða annan í staðinn.

Jón hóf að vísu sinn þátt í fyrirlestrinum frekar vankaður og byrjaði á að segja að hann hefði vakið Leikfélagið upp af dásvefni árið 1889.

Stína hafði útbúið heilmikið slidesjóv með skemmtilegum myndum og meira að segja vídeómynd af Sverri að leika homma í leiklestri á Sex í sveit. Varð hann sér þar til ævarandi skammar meðal ungmenna Hólmavíkurbæjar sem hneyksluðust mikið á framferði hans við leiklesturinn.

[Innsett 5. des. 2003 - ASJ]

 

Kynningunni frestað um viku

Leikfélagskynningin sem átti að vera á miðvikudaginn var frestað til miðvikudagsins í næstu viku, vegna nemendafæðar. Við bíðum þolinmóð eftir næstu viku, enda er fyrirlesturinn alveg tilbúinn.

[Innsett 28. nóv. 2003 - ASJ]

 

Kynning í Grunnskólanum

Núna á eftir (kl. 14:40 nákvæmlega) verður Leikfélagið með heljarmikla kynningu á starfsemi sinni í Grunnskóla Hólmavíkur. Greyin sem þurfa að hlusta á leikfélagana belgja sig eru 9. og 10. bekkur skólans. Það er annar af tónlistarkennurum Hólmavíkur, Bjarni Ómar Haraldsson, sem plataði leikfélagið til að koma og gera garðinn frægan.

Svo kemur bara í ljós hvort fólk gengur unnvörpum í félagið eftir kynninguna. Það eru Sabba, Jón, Einar, Stína og Arnar sem standa að gjörningnum (þarf þetta fólk ekkert að vinna?!?).

[Innsett 26. nóv. 2003 - ASJ]

 

Glóðvolgu fréttirnar orðnar kaldar

Óstaðfestu fréttirnar sem komu í hús í gær eru staðfestar. Skúli getur ekki komið vegna mikilla anna í vetur. Alltaf þarf þetta leikaralið að vera að gera eitthvað ...

Leikfélagið leggur samt ekki árar í bát, en það er þó ljóst að stjórnin þarf að stinga saman nefjum og búa sig undir að kafa í hyldýpi leikstjóravatnsins í leit að góðri veiði og vænum leikstjórafisk. Nú duga ekki hroðvirknisleg vinnubrögð og djöfulgangur. Þetta mál verður að ígrunda gaumgæfilega og af mikilli nákvæmni áður en beitan verður sett á öngul veiðimannanna.

[Innsett 26. nóv. 2003 - ASJ]

 

Glóðvolgar fréttir!!

Þær óstaðfestu fréttir voru að berast í hús núna rétt í þessu að Skúli okkar Gautason gæti ekki leikstýrt í vetur vegna mikilla anna. Þetta er að vísu bara kjaftasaga sem heyrðist á kennarastofunni. En sjaldan lýgur almannarómur - nema stundum.

[Innsett kl. 12:24 þann 25. nóv. 2003 - ASJ]

 

Stjórnarfundur í gær

Stjórnarmennirnir Einar og Addi mættu heima hjá Söbbu kl. 17.00, eða rúmlega það. Fundurinn hófst á því að hellt var upp á kaffi og hundakexið var dregið fram ásamt dýrindis súkkulaðihunangslíkkjör sem vakti mikla lukku.

Fyrsta mál á dagskrá var væntanlegur fyrirlestur eða dagskrá um leikfélagið og starfsemi þess í skólanum nk. miðvikudag. Ákveðið var að hóa saman þeim sem eiga vel gengt úr vinnu á miðvikudeginum, og láta þá koma saman á sunnudeginum til að ákveða hvernig fyrirlesturinn góði eigi að vera. Fyrirlesturinn fékk nafnið "Almenn greining á ferli uppsetningu leikrita með áherslu á uppsetningar hjá Leikfélagi Hólmavíkur í gegnum árin og margvíslegar íhuganir um nauðsyn þess að allir fái að vera með þegar eitthvað er í gangi hjá félaginu".

Þegar hér var komið sögu hringdi síminn hjá Einari. Gert var hlé á fundinum á meðan.

Því sem næst var talað um Skúla. Það gengur illa að ná í hann og hann er hvattur til að hringja í okkur. Við viljum fá að tala við þig, góði minn. Hér bíða þín gull og grænir skógar og einmana Víðidalsá - ef þú hefur tíma.

Þegar hér var komið sögu hringdi síminn hjá Einari. Gert var hlé á fundinum á meðan.

Þegar síminn var búinn að ljúka sér af var talað lítillega um leikrit sem koma til greina. Það eru fá leikrit og leiðinleg. Erum þó á því að lesa einhver leikrit fyrir og eftir áramót og sjá hvað kemur út úr því.

Þegar hér var komið sögu hringdi síminn hjá Einari. Gert var hlé á fundinum á meðan.

Þá var talað um árshátíðina miklu sem ákveðið var á aðalfundinum síðasta að halda fyrir áramót. Stjórnarmenn voru sammála um að það yrði aldrei hægt að halda partýið fyrr en eftir áramót. Stefnt að því ójá.

Þegar hér var komið sögu hringdi síminn mjög oft hjá Einari. Gert var langt hlé á fundinum á meðan. Að lokum var ákveðið að slíta honum.

[Innsett 21. nóv. 2003 - ASJ]

 

Heimasíða Skúla Gautasonar

Fréttamaður Leikfélags(s)lúðursins rakst af hendingu á heimasíðu okkar ástsæla leikstjóra, Skúla Gautasonar, á daglegu vefrápi sínu á dögunum. Óhætt er að mæla með hóflegri skoðun á vefsíðunni og hvetjum við meðlimi Leikfélagsins því eindregið til að kynna sér ólíkar hliðar Skúla.

[Innsett 14. nóv. 2003 - JJ]

 

100 ára afmæli Hólmavíkur

Nei, það á ekki að halda upp á 100 ára afmælið aftur. Einu sinni er alveg nóg. Svo verður Hólmavík 125 árið 2015 og þá er hægt að hafa fjör aftur. Nei, þessi frétt er sett inn af því JJ var að setja inn nokkrar nýjar myndir og flikka aðeins upp á sumar af þeim gömlu. 

Afraksturinn gefur að líta á þessari síðu

[Innsett 10. nóv. 2003 - JJ]

 

Ein mynd af Markólfu !!!

Fundist hefur ein ómynd úr leikritinu Markólfu, sem nú er hægt er að skoða á síðuna um það merka leikrit sem sýnt var 1999. Er hér mikið fágæti á ferðinni, dýrgripur og gersemi, því enginn virðist vita um fleiri myndir af þessu stykki.

Og það sem meira er. Enginn virðist heldur vita hvenær leikritið var sýnt og hvar. Hefur undirritaður þó margspurt leikara og aðra aðstandendur sem svara ævinlega út í hött eða vita ekkert í sinn haus (sem kemur reyndar ekki á óvart).

Myndir vantar sárlega úr fleiri leikritum sem Leikfélag Hólmavíkur hefur sýnt. Þar má nefna Köld eru kvennaráð, Húrra krakki, Sjóleiðin til Bagdad, Jóladagatalið hið síðara, Mysingssamloka með sveppum, Á sama bekk og fleiri leikrit. 

Hér með er hverjum þeim sem getur útvegað fleiri en 3 myndir úr þessum nefndu leikritum heitið veglegum verðlaunum. Er þar um að ræða matarboð hjá þeim stjórnarmanni í Leikfélaginu sem viðkomandi kýs helst að snæða með.

[Innsett 9. nóv. 2003 - JJ]

 

Gestabókinni hefur borist staka!

Gestabók Leikfélagsins hér á vefnum fær stundum góðar kveðjur, en nú hefur einn skrifenda slegið aðra slíka út með vísukorni. Kemur sú sending alla leið frá Örebro í Svíþjóð og er það Jón Bragi, kenndur við Fell í Kollafirði, sem er höfundurinn.

Jón Bragi svarar spurningunni um hvort hann sé í leikfélagi svona:
Nei, ekki formlegu alla vega. Hins vegar leikur allt í lyndi flesta daga að frátöldu nýliðnu alvarlegu krampakasti sem orsakaðist af hlátri ógurlegum við lestur vísnahornsins.

Aðspurður um hvort hann vilji segja eitthvað að lokum segir Jón Bragi síðan:
Lík máli mínu með frumortri skuðhendu sem ort er undir sterkum áhrifum þekkts skáldjöfurs. Að vísu hef ég betrumbætt skuðhenduformið nokkuð að því leyti að ég hef lengt síðustu línuna til þess að vísan henti betur til fjöldasöngs.

Heimasíðu sá ég fróða.
Síst var þar nöldrið eða vælið.
Las ég þar um leiklist góða.
En nú er klukkan orðin margt og ég er svei mér þá að hugsa um að fara bara bráðum að koma mér í bælið.

Aðrir skáldjöfrar eru óspart hvattir til að senda okkur vísur - undir hvaða bragarhætti sem þeir helst kjósa.

[Innsett 9. nóv. 2003 - JJ]

 

Yfirlýsing frá ritara Leikfélagsins

Þið getið alveg farið í þessa leikhúsferð fyrir mér. Alveg er mér sama. Þið getið bara skipulagt hana sjálf. Alveg er mér sama. Ég nenni ekki með. Hef nóg annað að gera við tímann en að eyða honum í svona vitleysu. Hef heldur ekki efni á því en ég ætla nú ekki að skrifa um fjármál mín hér. Hrmmff.

[Inns. 3. nóv. 2003 - ASJ]

 

Nýtt á vefnum

Búið er að bæta við efni á vefinn frá því í vor. Hér má til dæmis finna myndir og sögur úr leikferðunum með Sex í sveit í Árneshrepp og til Bolungavíkur. Líka er búið að uppfæra síðuna um Litla forvitna fílinn.

[Inns. 2. nóv. 2003 - JJ]

 

Leikhúsferð (- ef guð og ritarinn lofa)

Eins og alkunna er var stungið upp á því á aðalfundi félagsins að farin yrði leikhúsferð í haust. Mest hefur verið í umræðunni að skella sér í Borgarfjörðinn og sjá Mann og konu og kannski börnin þeirra og gista þá í Reykholti eina nótt.

Vonast almennir félagsmenn eftir að ritarapísl leikfélagsins fari að kröfum óbreyttra félaga og taki að sér stjórn og umsjón með þessum mikla merkisatburði, enda er öllum kunnugt af hörmulegri fundargerð hans hér neðar á fréttasíðunni hvað ritarinn er ákafur stuðningsmaður slíkra skemmtiferða.

[Inns. 2. nóv. 2003 - JJ]

 

Aðalfundurinn 2003

Hér er sem sagt komin fundargerð aðalfundar Leikfélags Hómavíkur sem var haldinn í Kvenfélagshúsinu 20. okt. sl. Fundargerðin er óbreytt og alveg eins og hún var skrifuð meðan á fundinum stóð. Njótið lestursins. 

Mættir voru: Sabba, Einar, Addi, Jón, Matti og Sigga. Ásdís mætti aðeins seinna og Jón Ragnar miklu seinna.

Skýrsla stjórnar

Fyrst var lýst eftir skýrslu stjórnar. Hún fannst ekki. Einar hóf þá lestur á skýrslu sem fannst aftan á reikningum félagsins. Óspart grín var gert að Einari, hlegið að honum og hann margstoppaður meðan á lestrinum stóð. Það vantaði í skýrsluna að vefurinn frábæri var líka opnaður og uppfærður daglega. Hann hlaut mikið lof allra fundarmanna.

Reikningar félagsins

Jóðlíf verður sýnt þegar leikararnir eru orðnir grannir. Salbjörg rakti alla liði og útskýrði. Höfundarlaun verða greidd síðar. Of mikil vinna í leikskrá, prenta hana næst. Allir sammála um það. Og svo voru allir sammála um það að samþykkja reikningana. Og svo samþykktu allir reikningana.

Kosning í stjórn o.s.frv.

Stjórnin samþykkti sjálfa sig sem næstu stjórn ásamt öðrum fundarmönnum sem klöppuðu ógurlega. Hrafnhildur, Stína og Arnlín voru reknar úr varastjórn enda gerir varastjórn ekki neitt hvort eð er. Í nýja varastjórn voru kosin Jón Ragnar, Sigga og Matti í Húsavík. Jón Ragnar og Sigga þó ekki í Húsavík. Svana og Jón voru kosin skoðunarmenn reikninga.

Næsta leikár og verkefni á því ágæta ári

Árshátíð LH. Grillkjöt, partý, gaman, fyrir burð. Snemma í des, seint í nóv? Tillaga frá Ásdísi um að skíra viðburðinn eitthvað – þema, segir Jón. Þrettándinn? Að hafa þetta í okt. væri langbest eru allir sammála um. Málinu var síðan vísað til stjórnar.

Setja netföng stjórnarmanna á vefinn, netfang Söbbu aðalnetfang.

Leikrit í samvinnu við Grunnskólann – stefna að samvinnu í vetur. Bjarni var að tala um samstarf – fyrirlestur – kennslustund – spurningar – þarf að útfæra og ákveða hvernig á að kynna leikfélagið.

Tækjakaup – hvað þarf – Einar. Talað um vídeótökuvél – hún yrði notuð – ekki kaupa nema við eigum pening. Spurning um sameign – eiga vél með einhverjum, stjórn falið að kanna málið nánar.

Þá talaði Einar um fjóra nýja kastara, það þyrfti líka að skipta um perur í öllum kösturum, setja 750 watta perur, perurnar eru forgangur. Engar appelsínur hér takk. Þarf líka að þrífa alla kastarana, smíða kassa undir ljósaborð.

Búið að taka til niðri, gott starf sem verður haldið áfram. Þarf að smíða vegg og setja hurð. Sigga vill taka að sér búningavörslu. Heyrheyr. Hugmynd að vinnudegi, það þarf að strauja skyrtur ojj. Gera allt sama daginn, stjórnin skipuleggur.

Sabba vill setja upp létt og skemmtilegt leikrit eins og allir hinir. Setja upp grínleikinn Skugga-Svein? Matthías vill leika harmleik, t.d. Blessað barnalán. Jón vill setja upp Hobbitann, Einar myndi þá leika Gollrir. Sabba sturlaðist úr hlátri þegar Matti lýsti líkamsháravexti sínum og ýmissa samsveitunga sinna. Talað um ýmis leikrit. Deleríum útþvælt.

Lesa meira saman, það er gaman. Hallæristenórinn – Klerkar í klípu – Fló á skinni. Stefnum að því að lesa saman fyrir áramót, auglýsa og lesa síðan. Leikstjóri Skúli gæti prófað að finna leikrit fyrir hópinn.

Það liggur beinast við að reyna að fá Skúla – hann verður e.t.v. viðloðandi. Ákveðið að Einar tali við hann og athugi möguleika á að hann athugi leikrit, við leitum líka að verki með samlestrum.

Jón vill fara í leikhúsferð (úff) áður en við byrjum að æfa fyrir stóra verkið. Taka skólarútuna jafnvel á Akureyri. Stjórnin sér um að jarða þessa hugmynd.

Þegar hér var komið rakkaði Einar niður Strompleik sem hann fór á í Þjóðleikhúsinu. Æjæj.

Svo fóru allir að hlægja og Jón eyðilagði stemmninguna með því að tala um að hafa námskeið. Það væri tilvalið að hafa námskeið fyrir start æfinga á verkinu næsta ár. Skúli – leik, Þórhildur – önd, fram o.fl. ... Senda menn á ljósanámskeið, förðunarnámskeið o.fl., o.fl.

Önnur mál

Jón vill hafa spilakvöld og bingó. Hann vill líka að hann verði útnefndur aðalleikari leikfélagsins. Monthænsn.

Þegar hér var komið sögu höfðu allir fengið meira en nóg af hvorum öðrum og því var fundinum slitið.

Ritari L.H., Arnar S. Jónsson

[Inns. 22. okt. 2003 - ASJ]


Aðalfundur haldinn í kvöld

Nú hefur vefstjóra borist síðbúnar fréttir um að aðalfundur Leikfélagsins verði haldinn í kvöld og það hafi verið auglýst fyrir margt löngu í Kaupfélaginu, en gleymst að láta vefstjóra vita nánar um þetta. Hvar hann verður veit nú enginn, vandi er um að slíkt að spá. Klukkan átta sagði einhver.

Ef vefsíðu Leikfélagsins verður ekki hrósað fram og til baka á fundinum er þetta í síðasta skipti sem þið sjáið þennan vef. Ef illa fer og hrósið gleymist eða verður hófstillt úr hófi verður vefurinn afmáður af yfirborði Internetsins við fyrsta tækifæri og á aldrei afturkvæmt á bylgjur örbylgjusambandsins.

[Inns. 20. okt. 2003 - JJ]

 

Aðalfundur haldinn fljótlega

Þannig er nú það. Það er sem sagt kominn tími á að halda aðalfund. Það kom til tals núna rétt áðan að halda hann miðvikudaginn 15. október. Vonandi verður það ofan á. Kemur í ljós fljótlega og verður þá væntanlega auglýst hér.

[Inns. 3. okt. 2003 - ASJ]

 

Norður og niður

Skemmtiatriði Leikfélagsins á Bændahátíð Sauðfjársetursins í Sævangi slógu í gegn hjá bíóþyrstum Strandamönnum. Skemmtiatriðin voru sem sagt hasar- og heimildarmynd í hæsta gæðaklassa, Norður og niður. Gert var grín að málefnum og fólki í allri sýslunni og enginn varð fúll (svo vitað sé).

Myndin var skopstæling á hinum ágætu þáttum Gísla Einarssonar (Gísla bróður), Út og suður, en einn af forvígismönnum Leikfélagsins, Jón Jónsson á Kirkjubóli, var einmitt eitt af viðfangsefnum seríunnar.

Einnig skemmtu Skúli Gautason einkaleikstjóri Leikfélagsins og Þórhildur Örvarsdóttir bóndi á Víðidalsá með söng og gítarslætti.

Það var líka borðað, dansað, drukkið, hlegið og slegist á Bændahátíðinni - en það er önnur saga.

[Inns. 16. sept 2003 - ASJ]

Einar 50 ára!!!!!!!!!

Það kann að hljóma ótrúlega en það er engu að síður staðreynd að Einar okkar Indriðason, stórleikari til margra ára, formaður leikfélagsins og góður drengur í alla staði hefur náð hálfrar aldar aldri. Það gerðist þann 27. ágúst síðastliðinn.

Leikfélagar fögnuðu þessum merka áfanga með óvæntri veislu heima hjá Einari að kveldi afmælisdagsins. Kallgreyið fékk nærri því hjartaáfall þegar hann kom inn um útidyrahurðina og leikfélagar öskruðu eins og þeir mest máttu og sungu rammfalskan afmælissöng í furðufötum.

Síðan var sest að snæðingi og etið dýrindis góðgæti sem kvenkyns leikfélagar höfðu galdrað fram. Já, það er gaman að lifa.

[Inns. 16. sept 2003 - ASJ]

 

Húmar að hausti ...

Nú er sumri tekið að halla og þá fara leikglaðir leikfélagslimir gjarnan á kreik að nýju. Framundan er Bændahátíð í Sævangi að kvöldi þess 6. september og hefur Leikfélag Hólmavíkur tekið að sér að sjá um skemmtiatriði á þeirri hátíð.

Handrit er tilbúið og æfingar og upptökur standa yfir, en vídeókamera er meðal þeirra vopna sem beitt er við undirbúning skemmtunarinnar. Mikil leynd hvílir þó skemmtiatriðunum og hefur stjórn Sauðfjársetursins ekki komist með puttana í þau, stjórnarmönnum til mikillar hugarhrellingar. Leikur grunur á að gera eigi óspart grín að stjórninni sjálfri - þeim Jóni á Kirkjubóli, Matthíasi í Húsavík og Sverri bassa.

Ef heimildir Leikfélagsslúðursins eru réttar eru Salbjörg Engilberts, Einar Indriða, Kristín Einars, Sigga Einars og Svanhildur Jónsdóttir handritshöfundar.

[Inns. 28. ágúst 2003 - JJ] 

 

Góður árangur

Var að skoða þennan lista sem er allmerkilegur. Þetta er sem sagt listi yfir það sem síðasti aðalfundur leikfélagsins, sem var haldinn fyrir ári síðan ákvað að gera. Það verður að segja eins og er að árangurinn er ótrúlega góður, sérstaklega miðað við að árið áður náðist ekki að standa við eitt einasta atriði :o)

1) Halda veglegt leikfélagspartý fyrir áramót
Það mistókst.

2) Vinna með Grunnskólanum að mögulegri sýningu á þeirra vegum
Það tókst verulega vel.

3) Reyna sem aldrei fyrr að fala góðan ljósabúnað á vægu verði
Það tókst mjög vel
.

4) Flytja geymslur félagsins niður í litla sal félagsheimilisins
Jújú, að sjálfsögðu gerðum við það.

5) Gera góða aðstöðu fyrir félagsstarfið í sama sal
Það mistókst.

6) Setja upp stórt og verulega fyndið leikrit eftir áramót
Það gerðum við
- heldur betur.

Ég held að við getum bara verið ánægð með árangurinn af starfinu í vetur og sumar. Svei mér þá.

[Inns. 16. sept 2003 - ASJ]

 

Spakmæli síðunnar: „Eitt er um að tala, annað að framkvæma.“

 
Vefur
: SÖGUSMIÐJAN
© 2002